Sunddrottningin

Til baka

Elsku Auður og tilvonandi jógamæður.

Mig langar að deila með ykkur fæðingarsögunni minni. Ég vona að hún verði ykkur hvatning inn í það sem í vændum er.

Þann 28.nóvember var hreyft við belgjunum hjá mér þar sem ég var komin 12 daga fram yfir og ákveðið að ég yrði sett af stað 30.nóvember ef ekkert gerðist í millitíðinni. Læknirinn sagði að leghálsinn væri byrjaður að styttast um 3 cm. minnir mig og það væru 50 % líkur á að fæðingin færi sjálf af stað við það að hún hreyfði við belgjunum.
Ég fór heim og tók á móti vinkonum mínum í kaffi, var með smá verki, eins og túrverki allan daginn og las á netinu að oft fyldu verkir í kjölfar þess að hreyft væri við belgjunum sem þyrfti ekki að þýða neitt. Ég þorði því ekki að vona að fæðingin væri á næsta leiti enda búin að bíða í 2 vikur án þess að nokkuð gerðist.
Rétt fyrir miðnætti fór ég að sofa ennþá með seiðing í bakinu og smá verki í kviðnum.
Klukkan 1.30 um nóttina voru verkirnir orðnir það sárir að mér fannst vont að liggja og ég settist á boltann og hreyfði mjaðmirnar í myrkrinu. Eftir dágóða stund á boltanum fór ég fram í stofu og vaggaði mér í mjöðmunum, færði þungann af öðrum fæti yfir á hinn til skiptis og andaði haföndun. Fyrir utan stofugluggan eru ljósastaurar sem vörpuðu miklum skuggamyndum um alla stofuna svo stemningin var alveg seiðmögnuð. Ég fór að hreyfa hendurnar eins og flamengódansari á meðan ég vaggaði mér og leið eins og indjánakellingu að magna seið. Öndunin róaði mig og ég hafði fulla stjórn á öllu. Var ennþá ekki alveg viss um að þetta væru hríðarverkir svo ég fór að taka tímann á milli verkja. Það voru 3-7 mínútur á milli sem mér fannst mjög óreglulegt en vissi í rauninni ekki alveg hversu reglulega verkirnir ættu að vera enda aldrei gert þetta áður. Verkirnir voru orðnir nokkuð harðir og bara 2 mínútur á milli kl.4 um nóttina og þá ákvað ég að vekja manninn minn. Hann þaut upp eins og skot þegar ég sagði að nú væri líklega kominn tími til að fara upp á spítala, ég hringdi í Hreiðrið á meðan hann gerði allt klárt og tók til töskurnar, sem hafði verið pakkað í 2 vikum áður. Hríðarnar urðu sárari og tíminn á milli þeirra hélt áfram að styttast, ég andaði allan tímann haföndun og lokaði augunum í hríðunum. Mér fannst það vera eina leiðin til að halda ró minni og láta sársaukan ekki ná tökum á mér.
Við vorum komin upp á spítlala klukkan rúmlega 5 en ég komst ekki út úr lyftunni þegar upp var komið því ég var í miðri hríð. Frikki stóð því í lyftuopinu til að lyftan færi ekki niður með okkur aftur.
Á meðan ég var í mónitor í skoðunarherberginu var ekki nema mínúta á milli hríða og þá gat ég talað við ljósmóðurina, annars andaði ég bara algjörlega í mínum heimi. Ég var komin með 5 í útvíkkun. Mér fannst orðið óþægilegt að standa í fæturna og hræðilegt að liggja. Hékk á Frikka á meðan ljósmóðirin lét renna í baðið. Mér fannst gott að komast í vatnið og geta haldið mér uppi á höndunum, þá þurfti ég ekki að standa í lappirnar. Fékk líka nálastungur í bakið sem ég veit ekki hvort hjálpuðu eitthvað.
Sóttin var orðin mjög hörð og ég lá þarna í baðkarinu með lokuð augun og andaði. Frikki sat við hlið mér og sagði “flott hjá þér” og “ þú ert ótrúlega dugleg” og ég sagði á milli hríða “ vatn” og “kalda tusku á ennið”. Ljósmóðirin lét lítið fyrir sér fara en hafði góða nærveru og talaði blíðlega og rólega. Leyfði mér alveg að stjórna ferðinni. Eftir svona hálftíma í baðinu fann ég fyrir rembingsþörf sem ekki var hægt að streitast á móti og þegar ljósmóðirin athugaði málið var ég komin með fulla útvíkkun og hún spurði hvort ég vildi vera áfram í baðinu, ég játti því enda gat ég ekki hugsað mér að fara upp úr. Hefði örugglega aldrei getað staðið upp.
Rembingnum fylgdu mikil frumhljóð. Ég öskraði ekki beint af sársauka þó hann hafi vissulega verið til staðar heldur kom röddin ósjálfrátt með rembingnum og ég leyfði henni að koma óhindrað. Ég rumdi víst ógurlega djúpri röddu, ég var ekkert að pæla í því hvort það væru læti í mér, fylgdi bara líkamanum og treysti honum fullkomlega.
Fyrst fæddist höfuðið og önnur hendin sem var kreppt upp við kinnina, svo þurfti að bíða eftir næstu hríð. Ljósmóðirin spurði hvort ég vildi finna kollinn en ég gat ekki hugsað mér það, vildi bara bíða eftir næstu hríð og klára verkið. Þess var ekki langt að bíða og þvílíkur léttir að finna litla líkamann renna út. Klukkan var 7.18 þann 29.nóvember þegar litla stúlkan sem hefur fengið drottningarnafnið Margrét synti í heiminn. 2 klukkutímum eftir að ég mætti á spítalann og rúmum 6-7 tímum eftir að hríðirnar byrjuðu fyrst.
Naflastrengurinn slitnaði þegar ljósmæðurnar tóku tóku stúlkuna mína upp úr vatninu svo pabbinn fékk ekki að klippa á hann, bara snyrta stubbinn. Ég fékk hana í fangið og var ótrúlega hissa á því að hún væri ekki nákvæm eftirmynd mín enda kom hún út úr mér, heldur var hún alveg eins og pabbi sinn. Þvílíkt undur að fá barnið í fangið.
Eins og átökin voru mikið að koma henni í heiminn þá fékk ég endurnýjaðan kraft við að fá hana á bringuna. Það reyndist svo erfiðara að komast upp úr baðinu þar sem ég var með svo mikinn glímuskjálfta að ég þurfti að hafa mig alla við að komast upp í rúmið. Ég rifnaði ekki neitt sem er kannski vatninu að þakka en ég reyndi líka að ýta ekki of mikið eftir í rembingnum heldur láta hann koma af sjálfum sér.
Litla snúllan var 14.5 merkur og 49cm, heilbrigð og fullkomin í alla staði, fór strax á brjóst og hefur eiginlega verið þar síðan. Núna skiptumst svo á að stara hvor á aðra og njóta þess að kynnast.

Ég held að það hafi skipt sköpum að ég hélt ró minni allan tímann, varð aldrei hrædd eða kvíðin. Andaði haföndun með lokuð augun og treysti líkamanum. Jafnvel þegar sársaukinn var næstum óbærilegur þá setti ég einbeitingu í öndunina og reyndi að slaka á alveg niður í kviðinn. Svo var ég líka að peppa sjálfa mig upp í huganum sagði “ þú getur þetta”. Fannst gott að einbeita mér að einni hríð í einu, reyndi að slaka á milli hríða og hugsaði til barnsins. Sársaukinn var ekki til einskis heldur hafði þann tilgang: Að koma barninu í heiminn!
Ég veit ekki hvernig konur geta farið í gegnum þetta án þess að anda og einbeita sér inn á við. Hugsa að ef ég hefði eitthvað verið að pæla í umhverfinu eða streist á móti sársaukanum hefði þetta verið allt önnur upplifun og líklega hefði ég beðið um deyfingu.
Mín deyfing var öndunin, einbeitingin og vatnið.
Jógatímarnir gáfu mér ótrúlega góðan andlegan undirbúning fyrir þetta ferli og það er ekki spurning að það skilaði árangri. Takk fyrir mig elsku Auður og gangi ykkur öllum vel. Vona að þið fáið að upplifa svona draumafæðingu eins og ég.

Kær kveðja
Álfrún Helga

Pin It on Pinterest

Share This