Söng dótturina í heiminn

Til baka

Hæ elsku Auður og þið flottu jógakonur.

Dóttir mín kom í heiminn þann 17. janúar kl. 02:14, 17 merkur og 53 cm. Ég gekk með hana í 40 vikur
og 5 daga.

Fæðingin gekk svo vel að ég á eiginlega erfitt með að trúa því sjálf. Það má eiginlega segja að ég hafi sungið og heilað elsku litlu dóttur mína í heiminn.
Þetta var mín þriðja meðganga og erfiðasta. Mér var lengi flökurt, vel fram yfir 20. viku. Ég var svakalega þreytt svo til alla meðgönguna, með lágan blóðþrýsting og mikla svimatilfinningu. Erfiðast var þó botnlangakast sem ég fékk þegar ég var komin 35 vikur og þurfti að fara í tæplega tveggja tíma botnlangaaðgerð með engilinn minn í bumbunni. Hef sjaldan verið jafn óttaslegin. En í því ferli öllu hjálpaði jógað mér mikið og í óttanum náði ég að fara upp í þriðja augað mitt, innsæið og sleppa tökunum.

En að fæðingasögunni: Miðvikudaginn 16. janúar var ég búin að ákveða að vera bara heima og slaka á. Þó svo ég hafi reiknað með því að ganga fram yfir, þar sem ég hafði farið 10 daga framyfir á síðustu meðgöngu, var ég orðin vel eirðarlaus og óþolinmóð á biðinni. Um morguninn vaknaði ég við verki, en það var svo sem ekkert nýtt því af og til í ca. tvær vikur þar á undan hafði ég vaknað við verki. Þegar strákarnir mínir voru farnir í skóla, leikskóla og vinnu fór ég í slakandi bað og gerði svo smá heimajóga. Mér fannst þeir dagar sem ég gaf mér tíma í það verða einhvernvegin betri dagar. Það þurfti ekki að vera mikið, bara aðeins að tengja inná við. Í baðinu fékk ég tvo hressilega samdrætti en þegar uppúr baðinu kom slaknaði á öllu. Allan daginn var ég svo að fá hressilega verki en langt var á milli þeirra svo ég var ekkert að gera mér vonir. En ég fagnaði hverjum einasta verk sem kom, bauð hann velkominn til mín og andaði.

Um kvöldmatarleytið komu tengdó og elduðu súpu handa okkur. Ég náði að borða nokkrar skeiðar af súpu en verkirnir voru orðnir örari. Eftir kvöldmatinn voru tengdaforeldrar mínir sendir heim meðþau skilaboð að mögulega myndum við kalla þau út um nóttina til að koma og passa strákana. Ég skellti ég mér í bað aftur, kveikti á kertum og tók Grace diskinn með og spilaði hann inná baði. Nú var ég orðin nokkuð viss um að þetta væru alvöru verkir og að stóra stundin væri runnin upp. Ég hélt áfram að fagna verkjunum, bjóða þá velkomna og anda. Ég fann fyrir mikilli tilhlökkun í hjartanu.
Þegar ég kom uppúr baðinu voru 6 – 10 mínútur á milli og maðurinn minn vildi fara að drífa sig upp á spítala. En ég var ekki tilbúin í það enn og sagði honum að bíða með að hringja í pössunina okkar aðeins lengur. Ég hringdi þó uppá spítala og sagði þeim að von væri á okkur. Foreldrar mínir komu við
hjá okkur, en mamma, sem er vel kunnug spítalanum, ætlaði að vera til taks í fæðingunni. Í þessum hríðum sem ég tók út heima var ég á fjórum fótum, ég hreyfði mjaðmirnar í hringi og svo vildi hausinn líka fara af stað. Ég velti honum í hringi og andaði svona eins og við gerum oft í byrjun
jógatíma.

Allt í einu fann ég að nú var kominn tími til að fara uppá spítala, það voru ca. 3 – 5 mínútur á milli og hríðarnar orðnar töluvert harðari. Það var hringt í tengdó í snatri, ég sagði manninum mínum hvað ætti að fara í töskuna og svo var brunað af stað. Ég fékk 3 – 4 hríðar í bílnum á leiðinni og það sem
gerðist var að ég byrjaði að syngja Ra Ma Da Sa möntruna af Grace disknum. Þetta var eitthvað sem kom algjörlega af sjálfu sér og hjálpaði mér mikið. Ég fór mikið innávið og upplifði mig eins og inní ljóshjúp. Ég tók ekkert eftir því hvað tímanum leið en las það í skýrslunni eftirá að við hefðum verið
komin uppá spítala um kl. 22:30.

Við skoðun kom í ljós að ég var komin með heila 8 – 9 í útvíkkun þegar við komum uppeftir. Í síðustu fæðingu var ég samt svo lengi með þessa síðustu útvíkkunar sentímetra að ég bjó mig undir að eiga töluvert eftir. Í hríðunum sem nú komu hélt ég áfram að syngja möntruna og rúlla höfðinu í hringi. Ég
vildi enga snertingu og hvæsti á manninn minn og mömmu ef þau reyndu að strjúka mér eitthvað. Ég upplifði þetta sem ferðalag mitt og dóttur minnar og þó svo gott væri að hafa stuðninginn þá upplifði ég mig inní ljóshjúp og flæði sem enginn gat komið nálægt nema ég og dóttir mín. Það var baðkar inní
fæðingastofunni og ég hafði verið með það bak við eyrað að fá að fara í bað þar sem nokkrar mæður sem ég þekki hafa talað mjög vel um það. En þegar þarna var komið langaði mig bara alls ekki til þess og ég treysti þessum löngunum mínum frekar en að láta þær hugmyndir sem ég var með í hausnum
trufla.

Eftir einhvern tíma hafði lítið gerst í útvíkkun svo ég ákvað að hreyfa mig meira, stóð upp, studdi mig við rúmið og ruggaði mjöðmunum til. Þá stakk ljósmóðirin uppá því að sprengja belginn og ég var til í það. Belgurinn var sprengdur og í kjölfarið kom ein öflug rembingshríð. Í hríðunum sem á eftir komu fann ég ekki fyrir rembingsþörf þannig að ljósmóðirin athugaði hvort útvíkkun væri ekki örugglega 10, sem hún var, og hvatti mig svo til að rembast í hríðunum þó ég fyndi ekki sterka þörf til þess. Ég gerði það og hef ekki hugmynd um hvað rembingshríðarnar voru margar en sú síðasta var mögnuð. Áður en hún kom bað ég ljósuna um að setja Ra Ma Da Sa möntruna á og fór svo með litla bæn, bað minn æðri mátt að koma til okkar, hjúpa okkur ljósi og orku og taka við málunum. Ég var svo greinilega bænheyrð. Þegar ég hélt að hríðin væri búin en þá fylltist ég einhverri auka rembingsþörf og orku og
kláraði þetta stórkostlega ferðalag með dóttur minni. Litli engillinn minn kom beint uppá magann á mér og þvílík tilfinning og alsæla. Ég hafði haft áhyggjur af því að alsælan yrði kannski ekki eins mikil og með strákana mína af því að þessi meðganga hafði verið erfiðari, en þær áhyggjur voru algjörlega óþarfar. Ég fékk svo sterka tilfinningu að ég hefði alltaf átt og elskað þessa litlu stelpu, ég þekkti hana eitthvað svo vel.

Ég fæddi hana hálf sitjandi stöðu og spyrnti fótunum í manninn minn öðru megin og mömmu hinu megin. Hvað fæðingastöðu varðaði þá treysti ég mínum eigin líkama og innsæi. Ljósmóðirin benti mér á að kannski væri gott að leggjast á hliðina eða fara á fjórar fætur en þetta var staðan sem minn
líkami vildi vera í og ég leyfði honum það.

Mér skilst að Ra Ma Da Sa mantran sé heilunarmantra og þess vegna má segja að ég hafi bæði sungið og heilað mína yndislegu dóttir í heiminn.

Þessi fæðing var yndisleg reynsla fyrir mig. Ég treysti algjörlega ferlinu frá upphafi til enda, notaði innsæið mitt til að finna hvað það var sem ég vildi gera og hvað ég vildi ekki gera. Það er jógað sem hefur kennt mér þetta, það er ekki spurning. Ég mæli þess vegna með því til allra ykkar óléttu
jógakvenna að drekka í ykkur jógaboðskapinn hennar Auðar því það er fyrst og fremst það sem nýtist okkur í þessum stærstu ferðalögum okkar og okkar yndislegu barna.

Pin It on Pinterest

Share This