Sannkölluð jógafæðing

Þann 29 september 2014 (á settum degi), klukkan 15:22 fæddist drengur og ég og kærastinn minn, X, urðum foreldrar.

Meðgangan hafði gengið vel. Grindin truflaði mig stöku sinnum en það var ekkert til að kvarta yfir og ég naut óléttunnar í botn. Mér þótti ómissandi að komast í meðgöngujógað, bæði til þess að líða betur líkamlega en líka þar sem mér fannst ég tengjast bumbugullinu mínu svo vel í tímunum, þetta var tími sem við tvö ein áttum saman.

Á sunnudagskvöldið þann 28 september fórum við X út að borða með systur minni og unnusta hennar. Veitingastaðurinn var á Laugarveginum og við þurftum að leggja bílnum í töluverðri fjarlægð, að minnsta kosti fyrir minn smekk – fannst ég vera alveg að springa! Því fékk ég góðan göngutúr fyrir og eftir kvöldmat. Á meðan við borðuðum fann ég fyrir svakalegum túrverkjum, miklu sterkari en þeim sem ég hafði áður fengið en þeim fylgdu ekki samdrættir. Ég fékk á tilfinninguna að það væri nú kannski eitthvað að byrja en ég ýtti þeim hugsunum frá mér því ég vildi ekki verða of spennt ef þetta væri svo ekkert. Þegar heim var komið áttum við X saman notalega stund, kúrðum aðeins yfir sjónvarpinu og stunduðum svo kynlíf. Ég vaknaði svo um kl 02:00 með samdrætti og þeim fylgdu verkir. Ég fór strax að taka tímann og það voru tvær til tíu mínútur á milli samdrátta. Ég var ekkert að láta X vita þar sem verkirnir voru óreglulegir og ekkert það slæmir. Ég byrjaði strax að nota haföndunina til að fá gott súrefnisflæði í líkamann og til að ná slökun. Um kl 04:00 vaknaði X og sá mig á fjórum fótum í rúminu að anda mig í gegnum eina hríðina. Hann var óvenju rólegur fannst mér og spurði einfaldlega hvort barnið væri að koma. Ég sagðist halda það og við fórum að skoða tímann á milli samdrátta. Stuttu eftir að X vaknaði fór ég á klósettið að pissa og þá fór slímtappinn hjá mér. Eftir að hann var farinn urðu verkirnir mikið sterkari og ég þurfti að einbeita mér ansi mikið til að anda í gegnum þá. Á þeim tímapunkti gat X ekki lengur leynt því að hann væri orðin stressaður og vildi að við færum bara upp á deild. Ég var ekki alveg viss því ég vildi ekki vera að fara of snemma og vera svo send heim. Ég ákveð að hringja og ljósmóðirin sagði mér bara að koma. Ég var fegin því ég var farin að finna mikið til. X byrjar að þjóta um íbúðina að taka saman það dót sem átti eftir að fara ofan í töskuna á meðan ég reyndi að finna einbeitinguna aftur, sem mér tókst. Svo drifum við okkur út í brjálað veður – rigningu og rok. Ég sagði X að stoppa bara á bensínstöðinni og kaupa samlokur, poweraid og eitthvað snarl til að hafa upp á deild. Ég var róleg og fannst ég hafa stjórnina. Við mættum á spítalann rétt rúmlega 06:00 og ljósmóðirin sem tók á móti okkur hét Elva. Hún mældi útvíkkun hjá mér, sem var 6 cm og hrósaði mér fyrir flotta öndun. Hún spurði mig hvort ég hefði einhverjar séróskir og þá sagði ég að ég hefði verið í meðgöngujóga hjá Auði og hvort hún kannaðist eitthvað við það. Ég þurfti ekki að segja meira því að þegar við komum inn á stofu byrjaði hún á því að dimma ljósin, setti svo grace diskinn í gang, lét renna í baðið og kom fyrir gervikertum inni á stofunni. Mér fannst alveg yndislegt að þurfa ekki að biðja um neitt, hún vissi bara nákvæmlega hvað ég þurfti. Klukkan 08:00 voru vaktaskipti hjá ljósmæðrunum og þótt ég sæi mikið eftir henni Elvu var sú sem ég fékk í staðin alls ekki verri. Hún hét Anna Hlín og svo var ljósmóðurnemi með henni sem hét Signý. Anna Hlín leit inn af og til en Signý sat yfir mér allan tímann. Andrúmsloftið í stofunni var rólegt og bara nokkuð rómantískt. Ég fór eiginlega í minn eigin heim þegar ég var komin ofan í baðið. Ég notaði gaddaboltana óspart þegar ég fékk hríð og þess á milli náði ég góðri slökun með því að halla mér fram á baðbrúnina. Augun mín voru lokuð og ég hugsaði að hver hríð hefði tilgang, að koma syni mínum í fangið mitt. Í þrjá klukkutíma var lítið sagt inn á stofunni, ég vildi bara hlusta á grace diskinn og vera látin í friði. X hallaði aftur augunum í lazyboy stól við hliðina á mér, á milli þess að færa mér vatn eða djús og smella á mig nokkrum kossum. Klukkan 10:00 dreif ég mig á klósettið að pissa og ljósurnar athuguðu útvíkkunina í leiðinni, sem var komin í 8 cm. Ég dreif mig aftur í baðið og hélt áfram í mínum transi að anda mig í gegnum hríðarnar. Upp úr hádegi fann ég að verkirnir jukust enn meir og þá vildi ég hafa X hjá mér. Þar sem ég var búin að eyðileggja gaddaboltana kreisti ég hendurnar á X í hverri hríð í staðin. Á milli hríða spreyjaði hann lavender spreyinu yfir mig og setti kaldan þvottapoka á hnakkann á mér sem mér fannst æðislegt (það var greinilegt að parakvöldið borgaði sig!) Á þessum tímapunkti var hann mér það nauðsynlegur að ég leyfði honum ekki að fara á klósettið! Daginn eftir sagði hann mér að hann hefði þó laumað sér þangað þegar hann kældi þvottapokann, en þar sem ég var svo djúpt sokkin í minn eigin heim hafði ég ekki tekið eftir því. Klukkan 14:00 vildu ljósmæðurnar fá mig upp úr til þess að athuga útvíkkunina aftur. Þar sem verkirnir voru orðnir svo sterkir og mér leið svo vel í baðinu sagðist ég helst ekki vilja fara upp úr. Ég spurði hvort það væri ekki hægt að athuga útvíkkunina bara í baðinu, mér liði svo vel ofan í. Þær tóku bara vel í það og komust svo að því að ég var komin með fulla útvíkkun. Vatnið hafði þó ekki enn farið og ég var ekki komin með neina rembingstilfinningu. Þannig var staðan í klukkutíma í viðbót. Þarna var ég orðin ansi þreytt og orkulaus. Ég hafði ekkert borðað síðan á veitingastaðnum kvöldið áður og bað X um að gefa mér smá súkkulaðibita til að fá svolitla orku í líkamann. Klukkan 15:00 stakk Anna Hlín upp á því að klóra aðeins í belginn þar sem enn hafði ekkert breyst og ég tók vel í það, þar sem ég var bara orðin þreytt og vildi fara að fá strákinn minn í fangið. Ég fór upp úr og á klósettið og svo sprengdi Anna Hlín belginn. Vatnið var tært og fínt svo að ég fékk að fara aftur í baðið, mér til mikillar ánægju. Ég fann strax að nú var kollurinn kominn neðar og fljótlega fann ég þessa rembingstilfinningu og Anna Hlín hvatti mig þá til þess að rembast. Þarna varð ég satt að segja svolítið hrædd en rembdist þó á meðan ég ríghélt í X. Ég fann fljótlega að þetta var ekki alveg eins og ég vildi svo ég ákvað að breyta til. Í næstu hríð ákvað ég að nota djúpa haföndun í rembingnum í stað þess að halda niðri í mér andanum. Þetta hjálpaði mér að koma honum neðar og stuttu seinna var höfuðið komið út. Einni hríð seinna kom drengurinn svo syndandi í heiminn og beint í fangið á mömmu sinni! Ógleymanleg og ólýsanleg stund. Hann var 18 merkur og 53,5 cm – stór og hraustur strákur.

Ég hreinlega veit ekki hvernig né hvort ég hefði yfir höfuð getað þetta á þennan hátt án allrar þeirrar þekkingar sem ég öðlaðist í jógatímunum. Haföndunin virkaði í raun sem deyfing fyrir mig og hjálpaði mér að ná slökun og gaddaboltarnir sem enduðu í lokin loftlausir í ruslinu gerðu augljóslega sitt gagn. En það sem mér fannst hjálpa mér allra mest var hugsunarhátturinn sem ég tileinkaði mér í sambandi við fæðingarferlið allt saman. Ég trúði því staðfastlega allan tímann að líkaminn minn vissi hvað hann væri að gera og ég treysti honum. Það kom fyrir á einum tímapunkti, um hádegisbilið þegar verkirnir versnuðu, að ég missti fókus. Í smá stund langaði mig til að gefast upp og biðja bara um deyfinguna. Ég var þó ekki lengi að rífa mig upp úr þessari hugsun því að ég vissi innst inni að ég gæti vel klárað þetta sjálf. Rödd Auðar hvíslaði bak við eyrað á mér að ég væri þarna til að þjónusta hann í heiminn og að í mér byggi sá kraftur til að gera það, ég þyrfti bara að treysta. Og það var það sem ég gerði. Mig hafði alltaf dreymt um að fæða barnið mitt í vatninu og ég er svo ánægð að sú ósk rættist. Ég er þakklát fyrir hversu vel fæðingin gekk og að ég hafi eignast þennan heilbrigða, fallega og sterka dreng.

Gangi ykkur vel með framhaldið elsku jógasystur og takk kærlega fyrir samveruna.

Pin It on Pinterest

Share This