Lítill skjálftaprins

Til baka

Elsku Auður og jógabumbur.

Við vorum nú farin að bíða eftir að bumbugullið færi að koma í heiminn. Ég hafði verið sett 14. maí samkvæmt sónar en sjálf hafði ég reiknað með 17 – 20. maí. Þetta er annað barnið okkar og var ég gangsett eftir 42 vikur á fyrri meðgöngu og gerði því alveg ráð fyrir að meðgangan myndi verða meira en 40 vikur. Ég ætla ekki að segja að það hafi verið auðvelt að bíða því ég vonaði innilega að ekki þyrfti að gangsetja mig aftur og langaði að upplifa eðlilegan framgang fæðingarinnar. En dagarnir liðu og margir sem voru merkilegri en aðrir eins og afmælisdagar vina og ættingja, trúlorunarafmæli foreldranna, dagur barnsins og fleyri merkisdagar, en barnið okkar var alveg sallarólegt og lét þetta nú ekki slá sig út af laginu, vildi velja sinn dag sjálft, enda var greinilega voða gott að kúra bara í mömmumalla og vera laus við áhyggjur umheimsins. Ég hélt áfram að mæta í joga og reyndi að hafa eitthvað fyrir stafni á hverjum degi þannig að tíminn væri fljótari að líða og var dugleg að fara í göngutúra. Við vorum með allt tilbúið, blanda lavender og lemmon sprey, allt tilbúið í töskunni svo ekki sé nú talað um marga klukkutíma prógram af slökunartónlist sem búið var að setja á diska til að taka með á fæðingardeildina. En eins og áður segir þá liðu dagarnir og nú var ég gengin 42 vikur. Það var búið að reyna ”öll trixin í bókinni” til að lokka barnið í heimin og ykkur að segja þá hefur sjaldan verið jafn hreint á heimilinu þar sem það var búið að skúra allt hátt og lágt, taka til í öllum skápum, bílarnir báðir þrifnir og bónaðir að ógleymdum öllum kílómetrunum og brekkunum sem ég var búin að þramma fram og til baka, nuddinu og nálastungunum, lítrunum af teinu sem ég drakk og svo ekki sé talað um heimaleikfimina, en allt kom fyrir ekki. Ég gat ekki fengið tíma í gangsetningu fyrr en föstudaginn 30. maí en þá var ég gengin 42 vikur og 2 daga. Sú sem ég talaði við á meðgöngudeildinni, þar sem gangsetningarnar fara fram, taldi að þar sem ég hefði sögu um gangsetningu áður og að ég væri hraust og liði vel þá yrði þetta allt í lagi. Þær myndu fylgjast vel með mér þangað til. Ég var nokkuð ánægð með þetta því eftir því sem tíminn leið jukust líkurnar á því að ég færi sjálf af stað. Miðvikudaginn 28. maí var hringt frá meðgöngudeildinni og okkur boðið að koma í gangsetningu um kvöldið, það hafði ein sem átti að mæta þá fætt daginn áður og því var laust pláss. Ég varð pínu svekt þar sem ég hafði vonað að ég fengi þessa 2 daga uppá að hlaupa til að fara sjálf af stað en sagði jafnframt við konuna í símanum að sennilega væri það bara best við kæmum um kvöldið. Ég hringdi í manninn minn og sagði honum að við mættum koma um kvöldið og hann varð ánægður með það enda búin að bíða lengi og hafði kippst við í hvert skipti sem síminn hringdi í marga daga og gott að það væri komið að þessu. Ég fór í góðann göngutúr og rökræddi við sjálfan mig um að þetta væri allt í lagi ég yrði bara að sætta mig við að ég væri svipuð og kýrnar í sveitinni sem ganga með í 10 mánuði en ekki 9 eins og aðrar konur. Að göngutúrnum loknum var ég bara nokkuð sátt við þessa ákvörðun. Kláraði að ganga frá öllu heima, fór einu sinni enn í gegnum hvort ekki væri allt í töskunni sem við þyrftum á að halda. Fór svo og sótti stóra strákinn minn sem er 3 og ½ í leikskólann og við fórum í afmæli sem okkur hafði verið boðið í. Þar fór ég að finna töluverða samdrætti en ýtti þeirri hugsun frá mér að fæðingin væri að byrja, þetta væri bara stress fyrir kvöldinu. Samdrættirnir héldu þó áfram að koma en ekkert reglulegir og þeim fylgdu engir verkir. Um kvöldmat fórum við með strákinn okkar til ömmu og afa og fórum að taka okkur til. Við mættum svo á meðgöngudeildina kl 22 með allt okkar hafurtask og boltann góða undir hendinni.
Þar var tekið vel á móti okkur og byrjað á að setja mig í monitor. Þar kom í ljós að ég var með nokkuð reglulega samdrætti eins og ég hafði fundið en þeir voru ekki mjög sterkir og ákveðið var að ég fengi ½ skamt af gagnsetningarlyfinu. Kl 23 fékk ég svo lyfin sem er sett undir tungurót. Ljósmóðirin sagði að næturvaktin væri komin og að maðurinn minn gæti bara farið að tígja sig heim því venjulega geriðst ekkert fyrr en nokkrum klukkutímum eftir að lyfið er gefið. Mjög fljótlega hörðnuðu samdrættirnir verulega og verkir fóru að gera vart við sig. Ljósmóðirin sem var á næturvaktinni kom og heilsaði upp á okkur og spurði hvernig liði. Hún var á þeim aldri að hún vissi nú alveg hvað hún söng og sá strax að það voru komnar töluverðar hríðar. Þegar maðurinn minn spurði hvort yrði ekki örugglega hringt í hann ef eitthvað gerðist sagði hún honum strax að setjast aðeins niður og bíða, hann gæti bara lagt sig í laysiboy stólnum, hann væri ekkert á leiðinni heim. Ég reyndi að vera dugleg að hreyfa mig. Ég sat á boltanum á milli verkjanna og annað hvort hossaði mér eða réri í hringi sem var mjög gott. Einnig var gott að hanga fram á rúmið þegar hríðanrar komu.
Um kl. 24:00 var ég svo sett í monitor aftur. Ljósmóðirin kom fljótlega og kíkti á ritið og sagðist ætla að láta þær vita uppi á fæðingargangi og spurði hvort hún ætti að athuga með bað fyrir mig. Ég tók því feginshendi. Eftir ritið kom læknir og skoðaði mig og þarna rétt fyrir kl. 01:00 var ég með rétt rúma 2 í útvíkkun. Verkirnir voru farnir að aukast verulega en ég náði að einbeita mér vel, notaði þriðja augað og andaði vel í gegnum þá. Það hjálpaði líka vel að vera á hreyfingu á milli. Ég fékk svo að fara upp og beint í bað. Þvílík dásemd að komast ofaní baðið. Það var eins og verkirnir dempuðust og urðu reglulegri og taktfastari. Þær voru yndislegar ljósmæðurnar uppi á fæðingargangi og sögðu að barnið yrði örugglega fætt áður en þær færu af vaktinni og ég samdi við þær um það að þær fengju að taka á móti barninu okkar. Ég svamlaði um í yndislegu vatninu bauð hverja hríð velkomna reyndi að slaka vel á og anda á meðan hún vann sitt verk, og kvaddi hana svo og þakkaði henni fyrir hjálpina þegar hún leið hjá og fór. Ég hugsaði til allra kvennana í heiminum sem væru að eignast börnin sín um leið og ég. Á milli hríðana dillaði ég mér í vatninu og það var svo yndislega auðvelt að hreyfa sig. Við hlustuðum á Grace og ég reyndi að slaka eins vel á og ég gæti með því að hugsa slökun niður í grindarbotninn, ég og barnið okkar vorum að vinna saman að þessu mikla og merkilega ferðalagi. Maðurinn minn fylgdist með, stjanaði í kringum mig með köldum þvottarpoka á ennið, köldu vatni að drekka og hvatti mig áfram við að anda og slaka.
Svo gerðist það !!! það kom kröftug hríð og í kjölfarið þessi rosalega magnaða rembingstilfinning. Ég sagði manninum mínum frekar höstuglega að sækja ljósmóðirina því að barnið væri að koma. Hann rauk upp og var næstum dottinn í látunum. Þær komu hlaupandi og það var tilfellið, útvíkkun orðin 10 og sást í kollinn. Ég trúði þessu ekki alveg þar sem einungis var liðinn rétt klukkutími síðan ég hafði verið með 2 í útvíkkun, og kollurinn hafði staðið hátt. Verkirnir höfðu líka ekki svo rosalega sterkir, gat þetta verið. Maðurinn minn greip undir handakrikana á mér, ljósmæðurnar rétt komust í hanskana og eftir aðeins 3 rembinga sem tóku örugglega ekki meira en 10 mín skaust hann í heiminn þessi líka fullkomni prins. Það voru allir mjög gáttaðir á þessum hraða gangi. Ljósmóðirin sagðist bara ekki trúa þessu, hún ætti eftir að gera allt !! en okkur var alveg sama. Hann fæddist þarna í vatninu og það var alveg frábært. Alveg fullkominn, horfði á okkur stórum augum og það var eins og hann hefði alltaf þekkt okkur. Leitaði strax að brjóstinu og fékk sér sopa. Við vorum samt svo hissa því við vorum undirbúin fyrir þónokkuð ferli þar sem fyrri fæðing mín, sem var líka gangsetning, tók 20 tíma. Þessi tók í raun ekki nema 2 og ½ og það var því smá ”svekkelsi” að vera búin að undirbúa margra klukkutíma prógram með slökunartónlist, lavenderspreyi og tilheyrandi kósíheitum en vera einungis komin á lag nr 3 á Grace þegar barnið fæddist.
Á sama tíma fyrir ári síðan stóðum við hjónin á hæsta tindi Íslands, Hvannadalshnjúk. Nú erum við á annarskonar tindi í lífinu og tilfinningin er eitthvað sem ekki er hægt að lýsa.Yndisleg. Drengurinn dafnar vel og stóri bróðir sem fæddist í mesta frosti í Reykjavík í 100 ár (fékk viðurnefnið Frosti) er alveg rosalega ánægður með littla bróðir sem fæddist á jarðskjálftadeginum 29. maí (hefur fengið viðurnefnið Skjálfti). Þeir kunna sko að velja sér dagana!
Elsku Auður og þið jogabumbur, takk fyrir allar góðu stundirnar í vetur. Þú getur gert ráð fyrir okkur í mömmujóga þegar líður að hausti.

Kv Sólrún Rúnarsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This