Herdís Hekla

Til baka

Alveg frá upphafi stefndum við David, maðurinn minn, á heimafæðingu. Það kom mér svolítið á óvart hversu margir höfðu sterkar skoðanir á þessari ákvörðun og voru tilbúnir að lýsa henni, oftast óumbeðið. Margir í fjölskyldunni voru beinlínis mótfallnir þessu, sérstaklega þar sem þetta var fyrsta barn. Oftar en einu sinni fékk ég að heyra um langömmu mína sem kom aðeins sjö börnum á legg af þeim þrettán sem hún fæddi á heimili sínu í afdal einum á Vestfjörðum. Við lásum bækur eftir Sheilu Kitzinger og Inu May Gaskin (ég mæli með bókum þeirra fyrir alla sem eiga von á barni, ekki bara þá sem ætla að fæða heima) sem og fjöldan allan af rannsóknum og tölfræði um heimafæðingar. Lesturinn gerði okkur enn sannfærðari um að þetta væri rétt ákvörðun en ég var samt mjög meðvituð um að gera þetta aldrei að tilefni til að sanna eitthvað. Ef eitthvað kæmi upp og ég þyrfti að fara á sjúkrahús þá myndi ég sætta mig við það. Ég vildi að fæðingin yrði eins náttúruleg og mögulegt væri og engin inngrip, en öryggi mitt og barnsins skipti auðvitað mestu máli. Við fluttum á Eyrarbakka í janúar og fengum ljósmóður frá Selfossi til að taka að að sér heimafæðinguna. Hún sinnti líka mæðraverndinni í heimahúsi svo ég kynntist henni nokkuð vel fyrir fæðinguna. Ég hafði mikinn áhuga á að fæða í vatni svo við keyptum uppblásna barnasundlaug með skrautfiskamyndum.

Áætlaður fæðingardagur var 19. mars. Þann 3. Apríl, eða 15 dögum seinna var ég búin að reyna allar aðferðir kerlingabókanna til að koma fæðingu af stað; borða sterkan karrírétt, ógrynni af ananas og lakkrís og drekka hindberjalaufste í tunnutali, fara út að skokka, klöngrast í fjörunni, fara út að róla, gera jóga, dansa, hugleiða, slökun, kynlíf, geirvörtunudd, heita lavenderbakstra á bumbunni, og svo mætti lengi telja. Eina aðferðin sem ég sleppti við að prófa var laxerolían eftir að ég las fæðingasögu konu sem tók laxerolíu og fór svo af stað 10 mínútum seinna, s.s. nokkrum klukkustundum áður en laxerolían fór að virka. Auk þess var ég búin að fara fjórum sinnum í nálastungur og ljósan var búin að hreyfa við belgjunum tvisvar. Ég var komin með rúma þrjá í útvíkkun, leghálsinn vel hagstæður. En náttúran var ekkert á því að láta grípa inn í sitt eðlilega ferli.

Það var mikill þrýstingur á ljósmóðurina frá mörgu samstarfsfólki hennar að gefa þetta frá sér þar sem ég væri komin meira en tvær vikur framyfir. Ég sá því fram á að missa af tækifærinu til að fá að fæða heima, því hún sagðist ekki vilja taka á móti hjá mér heima ef ég væri ekki búin að eiga morguninn eftir, eða föstudaginn 4. apríl. Fæðingarlæknirinn á HSu tilkynnti mér án þess að blikna að það hentaði spítalanum illa ef ég færi í gangsetningu um helgi, og því væri best ef ég gæti komið í gangsetningu seinnipartinn. Ekkert óeðlilegt hafði komið fram í monitor ritum, hreyfingar barnsins voru eðlilegar og með því að hlusta á líkama minn vissi ég sjálf að ekkert var að. Ég ætlaði ekki að láta vaktaskipti spítalastarfsfólks stjórna merkilegasta atburði lífs míns. Það fauk því heldur betur í mig og hann var hissa að heyra að ég hefði engan hug á að fara í gangsetningu strax þrátt fyrir að ég yrði að eiga á spítalanum.

(Ótrúlega margir virðast halda að daginn sem kona er gengin 2 vikur framyfir þá verði hún að fara í gangsetningu. Fólk spyr mig oft hissa hvort mér hafi verið “leyft” að ganga svona langt framyfir. Hvern ætti ég svosem að spyrja um leyfi til þess? Ég “vissi” einhvern veginn að allt væri í lagi og best væri að láta náttúruna hafa sinn gang. Læknirinn var sammála því en sagði að þetta væri nú bara “venjan” að gangsetja eftir 2 vikur)

En allavegana: með rúma þrjá í útvíkkun, hagstæðan legháls og meira en tilbúin að fæða fór ég heim, gerði jóga, setti tónlistina í botn og dansaði um allt hús. Undir kvöld var ég orðin ansi örvæntingafull og grenjaði ofan í hindberjalaufs-tebollann minn. David vissi ekki alveg hvað hann átti að segja svo hann tók utan um mig og spurði hvort ég vildi giftast sér. Hann hafði ætlað að bíða með bónorðið þar til í fæðingunni!! Ég var svo þakklát að þurfa ekki að taka þessa ákvörðun í miðjum hriðum svo ég sagði bara já, þrátt fyrir að hafa aldrei ætlað að gifta mig.

Það má segja að bónorðið, geirvörtunudd og kynlíf hafi síðan komið mér af stað um kvöldið. Samdrættirnir komu strax með 2-3 mínútna millibili. Ég trúði því varla að þetta væri að gerast og lá bara og hló af hamingju með hverri hríð. David benti mér á að það væri góð hugmynd að láta Siggu ljósmóður vita. Hún kom svo 2-3 tímum seinna. Við bjuggum um rúmið í gestaherberginu svo hún gæti lagt sig um nóttina og þyrfti ekki að fara heim.

Hríðarnar urðu aldrei neitt sérstaklega reglulegar hjá mér og mér leið eins og þær væru öldur. Stundum komu þær sterkar á 2 mínútna fresti, svo var eins og þær fjöruðu út og lengra varð á milli þar til það kom smá pása. Þá fékk ég góða hvíld og svo kom sterk hríð. Svona gekk þetta mestalla nóttina. Mér gekk svo vel að slaka á og anda mig í gegnum hríðarnar að þegar ég varð svöng tók David sig til, bakaði brauð og eldaði grjónagraut. Honum fannst frábært að fá loksins eitthvað að gera. Sigga lagði sig í gestaherberginu og kom fram reglulega til að tékka hjartsláttinn, útvíkkun og spjalla. Andrúmsloftið var svo afslappað og notalegt og við spjölluðum um allt milli himins og jarðar milli hríða. Hún virtist alltaf svolítið hissa hversu vel útvíkkuninni miðaði en þegar ég var búin að vera með 8 cm í tvær klukkustundir vorum við sammála um að sprengja belgina til að koma hreyfingu á hlutina.

David gerði laugina tilbúna og Sigga sprengdi belginn. Það var mikill léttir að sjá að legvatnið var alveg tært. Ég fór ofan í og David kom með mér. Hríðarnar komu með mjög stuttu millibili en ég réði vel við þær. Það var yndislegt að svamla í vatninu en þegar ég fór upp úr til að pissa gat ég ekki hugsað mér að fara aftur ofan í, fannst vatnið of heitt. Ég lagðist á fjórar fætur á grjónapúðann og David þrýsti á mjaðmirnar á mér í hríðunum og Sigga ýtti á einhverja punkta á bakinu á mér. Ég sá fyrir mér hvernig leghálsinn opnaðist með hverri hríð og einbeitti mér að því að anda, slaka á og streitast ekki á móti. Útvíkkunin kláraðist á mjög stuttum tíma og tilfinningin sem kom með hríðunum fór að breytast.

Það greip mig smá óöryggistilfinning sem hvarf um leið og ég minnti sjálfa mig á að það væri líkaminn sem kynni þetta, en ekki heilinn. Ég stóð upp, greip um hálsinn á David og lét líkamann um að stýra því hvernig ég átti að rembast. Mér leið vel svona uppréttri og fann barnið færast neðar með hverri hríð en allt í einu fannst mér ég verða að fara í laugina. Sigga hringdi í aðra ljósmóður sem býr hér á Eyrarbakka og hún kom til að vera henni til halds og trausts. Ég man hvað mér fannst hún kurteis að koma og heilsa upp á mig svona berrassaða á miðju stofugólfinu með bullandi hríðir. Eins kom sér það mjög vel að hafa hana því loks höfðum við einhvern til að taka myndir af fæðingunni. Rembingsþörfin jókst svakalega í lauginni og stuttu seinna fann ég kollinn þrýsta á spöngina. Ég sat á hnjánum, teygði mig niður og hélt um höfuðið á meðan ég rembdi því út. Enginn sá hvað var að gerast svo Sigga náði í spegil til að setja í botninn á lauginni og ég var hálfmóðguð þegar ég komst að því að hann var ekki fyrir mig sjálfa. David fór að háskæla þegar hún sagði honum að ég héldi um höfuð barnsins. Það tók tvær hríðar áður en lítil stúlka skaust út og kom beint í fangið á mér. Tilfinningunni mun ég aldrei gleyma, og heldur ekki því hvað það var yndislegt að sjá sólina koma upp og fylla stofuna af ljósi meðan ég fæddi hana. Þetta litla kraftaverk var það fallegasta sem ég hafði séð og mér leið eins og ég hefði alltaf þekkt hana. Um leið og við vorum komnar upp úr lauginni lagði ég hana á brjóst og var hissa hvað hún kunni þetta vel, því ekki hafði ég hugmynd um hvað ég var að gera.

Fylgjufæðingin tók sinn tíma og ljósmæðurnar voru farnar að undirbúa að senda mig á Selfoss í skurðaðgerð til að ná í hana. Tímaskyn mitt var algerlega brenglað þar sem ég dáðist að litla undrinu. Fyrir fæðinguna hafði ég stoppað allar klukkur í stofunni og hafði ekki hugmynd um að næstum tvær klukkustundir höfðu liðið og fylgjan ekki komin. Ljósmæðurnar stungu þá upp á að ég færi á klósettið og hringdu á meðan í fæðingarlækninn. Ég bað um djúsglas en þær sögðu að það væri ekki góð hugmynd ef ég þyrfti að fara í svæfingu. Nokkrum sekúndum seinna skaust fylgjan ofan í klósettið. Ég ætlaði sko ekki á spítala úr þessu! Fylgjan var svo sett í frystinn og verður grafin í garðinum í vor og tré gróðursett ofan á.

Það var alveg yndislegt að vera heima í sínu eigin umhverfi og ég held að það hafi gefið David tækifæri á að taka mikið meiri þátt en ella. Þrátt fyrir að fæðingin hafi tekið langan tíma var enginn að ýta á eftir mér, eins og ég get ímyndað mér að raunin væri á sumum fæðingadeildum. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið sársaukafullt. Vissulega eru þarna kraftar að verki sem yfirtaka líkamann algjörlega en mér leið aldrei eins og ég þyrfti verkjastillingu. Hríðarnar voru svo velkomnar og ég streittist aldrei á móti þeim

Ég nýtti mér ýmislegt jákvætt úr fæðingasögum sem ég hafði heyrt og lesið. Annað kom bara af sjálfu sér, eins og t.d. að hanga í stigahandriðinu, beygja mig í hnjánum, hrista mig alla og frísa eins og hestur í gegnum hríðarnar. Þetta er ekki tíminn til að hafa áhyggjur af því að líta kjánalega út. Og smá kúkur í lauginni er ekkert til að skammast sín fyrir og ekki má redda með gömlu matarsigti úr IKEA sem hvort eð var átti að henda. Jógað hjálpaði mér ekki bara að takast á við hríðarnar heldur líka að fara inn á við og hlusta á innsæið, líkamann og frumeðlið sem brýst fram í manni þessar klukkustundir sem fæðing tekur.

Kæru jógur, gangi ykkur öllum rosalega vel og megið þið eiga yndislega fæðingu. Að fæða barn er alveg ólýsanleg upplifun og það sem tekur við að henni lokinni eru bestu laun sem hægt er að hugsa sér fyrir nokkurt verk.

Sumarkveðjur,
Arna Ösp og Herdís Hekla

Pin It on Pinterest

Share This