Heimafæðing í sigurkufli

Heimafæðing í sigurkufli

Ég byrjaði í meðgöngujóga hjá Auði mjög snemma, þegar ég var komin um 16 vikur á leið, og það hafði ég einnig gert með fyrsta barn. Ég naut hvers tíma til hins ítrasta, en þetta var minn tími til að beina athyglinni inná við og undirbúa hugann á sama hátt og líkami minn var að undirbúa sig. Þessir tímar voru einnig yndislegir til að tengjast einstaklingnum í bumbunni, eitthvað sem gerðist alveg sjálfkrafa með fyrsta barn en mér fannst erfiðara á þessari meðgöngu. Með fyrsta barn vissi ég ekkert hverju ég ætti von á, og var því opin fyrir hvers konar tengingu og með hugann við nýja einstaklinginn mest allan daginn. Í þetta sinn, eftir að hafa upplifað móðurástina, það að elska svo mikið að það tekur í hjartað, þá átti ég erfitt að ímynda mér að tengjast öðrum einstaklingi á sama hátt. En ég mundi eftir fæðingarsögu í einum tímanum sem tók á þessu og sagði að „að hjarta mömmu stækkar bara“ þegar annað barn fæðist og áttaði mig á því að svona hugsanir væru eðlilegar. Ég leyfði mér því bara að hugsa aðeins öðruvísi í þetta sinn. Að hlakka til að upplifa móðurástina aftur með nýjum einstakling. Að vera spennt yfir því að fá aðra manneskju til að elska eins heitt og fyrsta barnið þó ég gæti ekki í augnablikinu ímyndað mér hvernig það verði.

Það að vera með tveggja ára gutta heldur manni á tánum alla daga og gerði það að verkum að jógatímarnir voru heilagir – ég þurfti á hvíld og ró að halda ekki síður en tíma til að tengjast nýja einstaklingnum. Ég var komin 24 vikur á leið þegar frumburðurinn varð 2 ára. Og þá var eins og einhver hafði tekið blíða, árrisula, hlýðna strákinn minn og sett á hann horn. Allt í einu var ómögulegt að koma honum fram úr eða í leikskólann, svo ekki sé talað um þau skipti sem ég komst ekki hjá því að taka hann með mér í búð. Daglega, og oft nokkrum sinnum á dag, kastaði hann sér niður og grét og öskraði af því að ég hafði ekki tekið hann rétt upp, eða sett vitlausan skó á fyrst, eða farið á undan þegar hann vildi vera fyrstur – og þá skipti engu þótt „mistökin“ væru leiðrétt tveimur sekúndum seinna. „The terrible two´s“ heitir það víst og sem betur fer fann ég fljótlega grein á netinu um þetta þroskastig og gat tæklað skapofsaköstin á sem árangursríkastan hátt. Hvað hefur þetta með fæðingarsögu barns númer tvö að gera? Svona tímabil, sem hjá okkur varði í 3 mánuði, er ólýsanlega þreytandi og tekur virkilega á – hvað þá fyrir ólétta konu. Þessi köst tóku miklu meiri toll á mér en svefnleysi og ég var oftast alveg búin á því andlega. Ég hafði gælt við að hætta að vinna mánuði fyrir settan dag og þetta tímabil gerði það að verkum að ákvörðunin var tekin. Ég vissi að ég þyrfti að safna kröftum og þetta var með bestu ákvörðunum sem ég hafði tekið.

Eins og með frumburðinn hafði meðgangan gengið mjög vel fyrir utan smá velgju fyrstu vikurnar. Í þetta sinn fann ég miklu meira fyrir hreyfingum barnsins, og þá áttaði ég mig á því hversu mikið framstæð fylgja (eins og var hjá mér á fyrstu meðgöngunni) hafði dregið úr næmni minni fyrir hreyfingu barnsins. Miðað við eldri bróðirinn, þá var þetta barn á vappi allan daginn og í fótbolta alla nóttina J Í 30 vikna skoðun hjá ljósmóður minni, yndislegu Margréti Knútsdóttur, fórum við að ræða fæðinguna og ég minntist á það hversu yndisleg upplifun mín var af fyrstu fæðingunni. Sú fæðing var nokkuð hröð, ég byrjaði á því að missa vatnið og 5 klst seinna var hann fæddur í pottinum á spítalanum í Keflavík og allt gekk eins og í sögu. Ég man hversu slök ég var í vatninu og hvað ég átti auðvelt með að leyfa líkamanum að taka völdin. Einu áhyggjur mínar af komandi fæðingu voru að potturinn yrði upptekinn og ég gæti ekki átt í vatni. Þá spurði Margrét mig hvort ég gæti hugsað mér að eiga heima hjá mér? Þá yrði potturinn nú örugglega ekki upptekinn J Mín fyrstu viðbrögð voru að það væri ómögulegt að sannfæra manninn minn um heimafæðingu, en smám saman áttaði ég mig á því að ég væri í þessum undirbúningi og ég hefði kannski aðeins meira um málið að segja en hann.

Það var erfitt að sannfæra manninn minn og ekki síður mömmu mína um heimafæðingu, og sjálf þurfti ég að bægja frá hugsunum um að ég væri ekki „týpan“ til að eiga heima (þannig áttaði ég mig á fordómum mínum um að einungis ofsalega náttúrlegar konur myndu ákveða heimafæðingu). Ég ákvað hins vegar að standa með sjálfri mér – ég væri hraust, ég uppfyllti öll skilyrði um heimafæðingar og síðast en ekki síst þá treysti ég líkama mínum 100%. Ég var þakklát manninum mínum fyrir að leyfa mér að taka þessa ákvörðum og mömmu fyrir að standa með mér þrátt fyrir að hún vildi helst að ég ætti barnið á hátæknisjúkrahúsi. En þrátt fyrir að ég væri mjög sátt við mína ákvörðun, og þekkti tölfræðina um hversu vel heimafæðingar gengju, þá var ég samt ekkert að auglýsa það að ég ætlaði að eiga heima – ég hreinlega nennti ekki að þurfa að sannfæra fleira fólk og vildi ekkert heyra um einhverjar hrakfararsögur í fæðingu (sem fólk er miklu viljugri til að deila þegar rætt er um heimafæðingar en aðrar fæðingar).

Skráður dagur var 28.apríl og það var yndislegt að vera bara heima síðustu vikurnar. Ég gerði barnaherbergið klárt, þvoði barnafötin og dútlaði mér í hinu og þessu. Naut þess að hafa tíma fyrir mig því ég vissi að þegar barnið kæmi þá yrði nóg að gera. Ég lagði mig á hverjum degi, og þá fáu daga sem eitthvað sérstakt stóð til og ég gat ekki lagt mig, þá fannst mér ég óendanlega þreytt. Og til að vera viss um að vera vel hvíld í fæðingunni, þá var þessi lúr mitt helsta forgangsverkefni síðustu dagana. Á settum degi fór ég að verða forvitin. Ég var tilbúin að fá barnið, var vel hvíld og hafði fengið nægan tíma með sjálfri mér, en ég vissi að barnið myndi velja sinn dag og ég var forvitin að vita hver hinn fullkomni dagur yrði. Frumburðurinn fæddist eftir 41+1 dag, en hefði ekki getað valið betri dag, og þá áttaði ég mig á því að börnin vita betur en við hvenær þau eiga að koma J Ljósmóðirin sem ég hafði valið til að sjá um heimafæðinguna, Anna Rut Sverrisdóttir, átti bókaða ferð erlendis þann 5.maí og ég vissi það frá upphafi. Ég hugsaði með mér að það væri frábært ef barnið kæmi í heiminn áður en ljósmóðirin færi erlendis, en ef ekki, þá ákvað ég að barnið væri bara að segja mér að það vildi frekar fæðast á spítala. Í samráði við ljósmóðurina, þá ákváðum við að 3.maí myndum við nota öll trikkin í bókinni til að koma fæðingunni af stað (hreyfa við belgnum, laxera) en ég skildi strax fara að taka kvöldvorrósarolíu (gleypa og upp leggöng).

Síðustu kvöld hafði ég verið með fyrirvaraverki og spennan við að þetta væri kannski að fara af stað, ásamt því að vera orðin mikil um mig, gerðu það að verkum að ég svaf ekkert rosalega vel. Verkalýðsdagurinn 1.maí rann upp og ég var vöknuð fyrir kl.7. Mér fannst gaman að vera vöknuð snemma á þessum frídegi. Við hjónin ætluðum með guttann á leikrit í bænum og njóta dagsins. En fljótlega fór ég að fá smá fiðring/túrverki. Guttinn vaknaði um kl.8 og ég áttaði mig á því að ég gat eiginlega ekki haldið á honum né leikið við hann og ræsti því pabbann og hringdi í ljósmóðurina. Sagði henni að ég héldi að það væri eitthvað í gangi en alveg óþarfi að koma núna. Tilhugsunin um að kannski væri þetta dagurinn gerði það að verkum að ég fór að ryksuga. En ég fann fljótt að það jók frekar á fiðringinn sem nú var orðinn að alvöru túrverkjum. Ég hætti að reyna að stjórna, settist á stóra boltann og einbeitti mér að því að slaka á. Klukkan var farin að nálgast tíu og nú hringdi ég aftur í ljósmóðurina og sagði að hún mætti alveg huga að því að kíkja í heimsókn. Hringdi einnig í mömmu, og hún mætti á staðinn á núll einni. Ég sat í eldhúsinu á stóra boltanum, spjallaði við fólkið, og tók tímann milli hríða með vefsíðu á netinu. Klukkan hálf ellefu kemur ljósmóðirin og tíminn milli hríða í kringum 2 mínútur, en mér leið voða vel. Ljósmóðirin spyr hvort ég eigi penna, og ég ætla að standa upp af boltanum til að ná í penna en finn þá finn ég þennan svakalega sting – eins og einhver væri með hníf í kviðnum á mér – og sest þá aftur niður og verkurinn hverfur! Ég og allir í kringum mig átta sig á því að ég er komin lengra en við héldum… og ég þakka guði fyrir þennan dásamlega bolta, þetta galdratæki, sem á einhvern hátt tekur þrýstinginn af mér, af mjöðmunum, og leyfir mér að njóta tímans. Einhvern veginn kem ég mér samt af boltanum og ljósmóðirin skoðar mig – komin með 6 í útvíkkun og hún og mamma fara að gera pottinn klárann. Systir mín kemur og sækir strákinn, og fer með hann á leikritið sem honum hafði verið lofað. Mér fannst frábært að þurfa ekki að fara neitt, og gat því einbeitt mér að því að slaka og nýta öll ráðin sem ég lærði í jóganu. Ég hélt á gaddaboltunum, leyfði þrýstingnum að fara út í handleggina, dúaði á stóra boltanum og mamma mundaði spreyið góða. Klukkan hálf tólf fór ég í pottinn og byrjaði þá aftur að einbeita mér að því að slaka, með gaddaboltanana góðu. Jógatónlistin ómaði, ljósmóðirin prjónaði og við spjölluðum. Smám saman fór þrýstingurinn að ágerast og ég þurfti að einbeita mér betur og betur að því að slaka á – leyfa líkamanum að gera það sem hann þurfti. Svo kom að því að ég nennti þessu varla lengur, og hafði á orði að „labor“ væri rétta orðið yfir þetta því þetta væri sko vinna. Ég sagði einnig að þennan hluta hafði ég greinilega þurrkað út úr yndislegu minningu minni af fyrstu fæðingunni. En þá mundi ég, úr öllum fæðingarsögunum í jóganu, að þegar þessar hugsanir fara að koma þá er útvíkkunin að verða búin. Og það passaði, í næstu hríð kom rembingstilfinningin, eftir að ég hafði verið í baðinu í rúman klukkutíma. Það var svo gott að vita að þetta væri síðasta skrefið í að fá barnið mitt í hendur. Nú stillti ég mig inn á að tala við barnið mitt, hjálpa því út. Ég lá á bakinu í baðinu með manninn minn fyrir aftan mig, og hélt fast um hendur hans. Hann hallaði sér að mér og hvíslaði að mér að ég gæti þetta, eitthvað sem ég vissi fullvel en var svo gott að heyra. Ég ímyndaði mér að ég væri að stækka eins og blóm og sendi góða strauma til barnsins svo það yrði ekki hrætt í ferðalaginu. Þegar rembingstilfinningin kom þá rembdist ég varla neitt, ég myndi frekar segja að ég stýrði kraftinum niður. Ég opnaði hugann, losaði kjálkann og fylgdi barninu út. Eftir 20 mínútna rembing kom höfuðið út, ennþá í vatnsbelgnum! Það var ekki fyrr en í næstu hríð, þegar restin af líkamanum kom út að vatnið fór. Þetta heitir víst að fæðast í „sigurkufli“ og er talið gæfumerki J Klukkan var alveg að verða eitt þegar ég fékk hrausta drenginn okkar í fangið.   Hann grét en horfði svo á okkur foreldrana og fór strax á brjóstið – ég hafði ekki einu sinni fætt fylgjuna ennþá! Stuttu seinna kom fylgjan og strákurinn var áfram duglegur að drekka og ofsalega athugull. Eins þægilegt og það var að þurfa ekki að fara neitt til að eiga barnið, þá var ennþá þægilegra að þurfa ekki að fara neitt eftir fæðinguna. Ég fór í mína eigin sturtu og svo skoðaði ljósmóðirin mig (3 lítil spor, „fleiðrur“ sem tók 5 mín að sauma) og loks var nýji prinsinn mældur og vigtaður, 16 merkur og 51 cm. Þegar við komum fram aftur var búið að tæma og fara með pottinn og búið að laga kaffi og meðlæti. Svo sátum við í stofunni og höfðum það huggulegt þegar systir mín kom og strákurinn okkar fékk að sjá litla bróður. Þetta var fullkominn dagur í alla staði. Ég er yfir mig þakklát að hafa fengið aðra yndislega fæðingu – reynslu þar sem ég kem barni í heiminn með aðstoð fólksins í kringum mig. Og sælutilfinningin að fá gullmolann, sem seinna fékk nafnið Róbert Ari, í hendur er engri lík og gerði það að verkum að ég svaf lítið fyrsta daginn J

En ég verð að deila einu til viðbótar með ykkur bumbulínum, því þetta kom mér óþægilega á óvart. Þar sem Róbert Ari var mjög duglegur að drekka frá fyrstu mínútu (hann var hér um bil á brjóstinu allan liðlangan daginn) þá fékk ég rosalega samdráttarverki fyrstu nóttina. Ljósmóðirin hafði sagt mér að taka verkjalyf ef ég fengi verki og að ég mætti taka á 4 tíma fresti. Ég tók þau um daginn og svo um klukkan ellefu þegar ég fór upp í rúm. En klukkan 5 um nóttina vaknaði ég við rosalegan sársauka. Ég lá í keng í rúminu og grét af sársauka og gat ekki haldið á Róberti né gert neitt annað en vera í fósturstöðu. Ég man ekki eftir að hafa fengið neina samdráttarverki að ráði með frumburðinn en þetta var sársauki sem ég hef aldrei upplifað áður. Eftir þetta stillti ég klukku og tók verkjalyf samviskusamlega á 4 tíma fresti. Eftir2-3 daga fór ég loksins að geta minnkað og svo sleppt lyfjunum. Mín ráð: ef þetta er ekki fyrsta barn, takið verkjalyfin líka á nóttunni.

 

Pin It on Pinterest

Share This