Haföndun og epitúral

Til baka

Ég var gengin 37 vikur og 6 daga með tvíeggja tvíburana mína, dreng og stúlku, þegar þau ákváðu að líta dagsins ljós. Þau komu undir öllum að óvörum, þegar stóra systir þeirra var aðeins 11 mánaða. Það var því ljóst frá byrjun að það yrði fjör á Hóli. Fyrst lagðist þessi óvænta fjölgun barna frekar illa í mig og ég var lengi að sætta mig við hana. Þegar í ljós kom að börnin væru tvö gat ég ekki annað en talið sjálfa mig útvalda af almættinu til að gegna þessu ótrúlega hlutverki, að fá að ganga með og fóstra tvö börn í einu. Það hjálpaði mér að sætta mig við orðinn hlut og fljótlega fór ég að hlakka til ævintýrisins.
Meðgangan gekk vel og ég var aðeins í jóga fyrir jól, en settur dagur var 9. mars 2008. Ég var önnum kafin fram að jólum í námi og vinnu en það var ótrúlegt hvað ég hafði mikið úthald og styrk. Það var eiginlega eins og börnin gæfu mér styrk og ég lauk 10 einingum í Háskólanum og hækkaði meðaleinkunina mína þar og lauk einnig stóru söngprófi og hélt tónleika í byrjun desember. Móðurhlutverkið var auðvitað líka efst á dagskrá og ofan á allt annað var ég að skilja við barnsföður minn og undir miklu andlegu álagi.
Eftir áramót fór ég í fæðingarorlof og mætti í jóga ca einu sinni í viku. Ég var í jóga meira og minna alla síðustu 3 mánuðina á minni fyrri meðgöngu og nýtti mér það óspart í fæðingu dóttur minnar, sem gekk mjög vel. Svo vel að þegar ég vissi að ég væri aftur orðin ófrísk fór ég strax að kvíða fyrir næstu fæðingu því mér fannst ekkert myndu geta toppað hana! Þá var ég deyfð með nálastungum sem hjálpuðu mér að slaka og ruggaði barninu svo út með miklum mjaðmadansi, innspíreruð af jógatímunum á meðan pabbinn nuddaði á mér lendarnar og sagði brandara um hvað ég væri skyndilega orðin góð í salsa (og ég hafði sko EKKI húmor fyrir því þá!). Ég hafði enga tengingu við 3. augað og gat ekki ímyndað mér hvernig hægt væri að hugsa um það í fæðingunni. Öndunin var einnig grunn hjá mér og ljósmóðirin þurfti sífellt að minna mig á að anda djúpt. Í tvíburafæðingunni var þetta allt öðruvísi. Tengslin við 3. augað dýpkuðu á þessari meðgöngu og ég notaði það óspart í daglega lífinu í ýmsum erfiðum kringumstæðum.
Þegar leið að fæðingu fann ég óhjákvæmlega fyrir kvíða, sérstaklega þar sem ég hafði heyrt ansi margar dramatískar tvíburafæðingasögur, sem oftar en ekki lentu í bráðakeisara, nú eða þá voru fyrirburafæðingar. Til að undirbúa mig betur fyrir fæðinguna hugsaði ég oft til barnanna þegar leið á meðgönguna og sagði við þau í huganum að við myndum gera þetta saman. Ég leit eiginlega á fæðinguna sem alveg jafnmikið þeirra verkefni og mitt. Þetta var búið að vera langt og strangt ferðalag og ég vissi að þau voru send til mín á þessum tímapunkti í mínu lífi, eða ákváðu að koma sjálf af einhverri alveg sérstakri ástæðu og við myndum hjálpast að við að sameinast í fæðingunni. Ég er núna sannfærð um að þessi hugsun hjálpaði ótrúlega mikið til.
Ég byrjaði að fá fyrirvaraverki ca 2 vikum fyrir fæðinguna og hélt oft að nú væri ballið að byrja, en það gerðist síðan aldrei neitt. Verkirnir voru ekki miklir, en svolítið þreytandi til lengdar, þegar ekkert meira gerðist. Ljósmóðirin mín ákvað svo að senda mig í mat og mónitor upp á landspítala þann 21. febrúar til að athuga með gangsetningu, þar sem ég var orðin frekar lúin öll, líkamsþyngd mín stóð í stað og ég var komin með mikinn kláða í útlimi og bumbuna sem gat orðið óbærilegur og getur bent til mikils álags á lifrina. Ég var þá komin með 2-3 í útvíkkun. Hreyft var við belgjum og gangsetning ákveðin 25. febrúrar. Ég var sátt við það svoleiðis, ég var orðin þreytt á að vera ófrísk og fannst það sem ég hafði gert sjálf til að reyna að koma mér af stað alls ekki gera neitt gagn, kláðinn var líka hræðilegur og ég var komin með útbrot af sífelldu klóri. Eftir heimsóknina á landspítalann fór ég í nudd og nálastungur hjá æðislegri nuddkonu sem ég hafði heimsótt nokkrum sinnum á meðgöngunni, og rölti aðeins um Laugarveginn eftir það. Ég fékk smá verki um kvöldið en þeir duttu niður og sömuleiðis daginn eftir, sem var föstudagur. Laugardagsmorguninn 23. 2. vaknaði ég eldsnemma og þá hafði komið smá blóð, en ég gerði ekkert veður út af því, reiknaði með að fara í gangsetninguna á mánudeginum. Ég dreif mig í jóga í hádeginu. Það var frábært, þetta var eini laugardagstíminn sem ég hafði mætt í í allan vetur og sem betur fer var Auður að kenna 🙂 🙂 Við dönsuðum lengi sem var æðislegt. Í stöðunum var að venju lögð áhersla á haföndunina og Auður sagði okkur að hugsa öndunina eins og öldu sem flæddi áfram eða eitthvað slíkt, ég man það ekki alveg, nema að það sem hún sagði kallaði fram mynd í huga mér: Mynd af sjónum og á honum flutu börnin mín tvö í sitthvorri körfunni. Með hverri öndun sá ég þau fyrir mér nálgast land. Ég var með smá verki allan jógatímann en kippti mér ekki upp við það, beið eftir að þeir hættu. Ég var komin heim um hálf tvö, eldaði hádegismat handa heimilisfólkinu og fór út á róló með dóttur minni og tengdamóður (þarna var barnsfaðirinn altsvo aftur kominn inn í myndina í einhverri mynd..). Á meðan á útivistinni stóð fannst mér verkirnir kannski örlítið vera að harðna og þegar við vorum að koma inn var engum blöðum um það að fletta fannst mér að ég væri komin af stað. Við fórum upp, ég hringdi í foreldra mína sem sóttu dóttur okkar og hossaði mér á boltanum mínum á meðan ég beið eftir þeim. Við tókum tímann á hríðunum og það var ansi skondin sjón þegar barnsfaðir minn hélt á sitthvorri skeiðklukkunni og var að reyna að mæla tímann milli hríða og lengd hverrar hríðar! Þær voru strax mjög langar og örar, á 3ja mínútna fresti og vörðu í 2 mínútur. Klukkan hálffimm var ég komin upp á fæðingardeild með 7 í útvíkkun! Þar sem um tvíburafæðingu var að ræða var “viðbúnaður”allur frekar mikill. Ég fór strax upp í rúm og ljósmæðurnar fóru strax að vesenast með að setja upp nál og tylla elektróðu í kollinn á drengnum sem var fyrstur í röðinni (!) til að fylgjast með hjartslætti hans og svo setja mónitorana utanum mig alla og vera vissar um að vera með réttan hjartslátt þar og til að fylgjast með hríðunum. Svo kom fæðingarlæknir og staðfesti með sónartæki að tvíburi B, litla stúlkan, væri í höfuðstöðu, en hún hafði verið sitt á hvað í síðustu skoðunum. Þetta var frekar mikið vesen allt, gekk hægt að festa elektróðuna og var óþægilegt, og ætlaði aldrei að takast að stinga nálinni í handarbakið til að geta sett upp vökvann. Þær vildu helst ekki hleypa mér á klósettið einu sinni og vildu bara að ég pissaði í undirbreiðslur í rúmið! Mér fannst það svo sem í lagi en eftirá fannst mér það alveg glatað að leyfa mér ekki að fara á klósettið. Ég fór svo reyndar þegar þær voru búnar að “athafna sig”. Þar sem mér var ekki gefinn mikill kostur á að hreyfa mig og var svo sem ekki að krefjast þess heldur einbeitti ég mér algjörlega að hafönduninni, hún var mitt haldreipi. Ég kallaði fram myndina sem ég fékk í hugann í jógatímanum fyrr um daginn og með hverri öndun færðust börnin nær og nær landi. Ég var með rosalega miklar hríðir og ljósmæðurnar horfðu stundum bara á mónitorinn og litu svo á hvora aðra! Sem dæmi um hversu andlegt ástand sársauki er versnaði úthald mitt til muna þegar önnur ljósmóðirin horfði á mónitorinn og sagði: Þetta eru rosalega miklar hríðir! Ég missti algjörlega tök á mér og fór að engjast og engjast í rúminu. Ég tók því boði um mænudeyfingu fagnandi, en mér skilst að hún sé alltaf boðin þegar tvíburamæður eiga í hlut, þar sem talsverðar líkur eru á keisara. Ég hafði fyrirfram frekar mikla fordóma fyrir þessari deyfingu en ég hef þá svo sannarlega ekki núna. Ég á að baki yndislega, verkjalyfjalausa fæðingu, og væru aðstæður og viðhorf til tvíburafæðinga öðruvísi hér á landi er ekki vafi á að ég hefði farið sömu leið. En það er ekki síður “þjáning” að þiggja deyfinguna, það er frekar mikið vesen og ekki tekið út með sældinni, fyrr en eftir á! Ég settist fram á rúmið og fann hvíld í elsku þriðja auganu mínu. Ég hafði lokuð augun og opnaði þau ekki einu sinni þegar svæfingarlæknarnir heilsuðu mér! Á sama tíma og setja átti upp legginn var ljósmóðirin að skipta um saltvatnslausn sem ég var með í æð og rann þá ekki nema nálin í hendinni út! Það ætlaði aldrei að hafast að setja aðra nál upp og á endanum voru báðir svæfingarlæknarnir búnir að reyna og það hafðist þegar búið var að stinga mig sundur og saman.. Meira að segja annar svæfingalæknirinn hafði á orði að það væri “seigt í mér” og hafði sjaldan lent í öðru eins! Ég beit bara á jaxlinn og hvíldi í 3. auganu.. opnaði augun einu sinni allan þennan tíma og sá bara fólk í grænum sloppum með grímur fyrir andlitinu og lokaði þeim strax aftur! Þegar þessi horror var búinn, sem í minningunni var það versta við fæðinguna, gat ég slakað á. Ég var samt alltaf með einhvern seyðing niður í hægri nára og fótlegg og tengdi það við hríðarnar, svo það hélt mér við efnið. Ég hélt áfram að anda haföndunina þegar ég fann þennan sting og reyndi að missa ekki fókusinn þrátt fyrir að vera allt í einu orðin nánast verkjalaus. Ég hefði getað farið að spjalla um daginn og veginn og dottið alveg úr “karakter”! Hríðarnar minnkuðu ekkert þrátt fyrir deyfinguna, það var alveg rífandi gangur í þeim. Þarna höfðu vaktaskipti átt sér stað og önnur ljósmóðir tekin við, yndisleg. Hún sagði að nú myndum við bara bíða eftir að útvíkkun væri að fullu lokið og ég hélt nú bara að hún væri að grínast og fannst hún alltof afslöppuð yfir þessu. Ég fann fljótt þegar deyfingin dofnaði, ég var sloj í kannski svona 15 mínútur, en alls ekki útúr heiminum eins og ég hafði jafnvel búist við. Mamma mín kom nokkur eftir að ég fékk deyfinguna og það var frábært, en hún var einnig viðstödd mína fyrri fæðingu. Ég veit að margar konur gæti ekki hugsað sér að hafa móður sína nálægt sér í fæðingu en mamma er sko mín “doula”! Klukkutíma eftir að deyfingarhryllingnum var lokið eða um níuleytið fór ég aðeins að rembast með þrýstingstilfinningunni eins og ljósmóðirin stakk uppá og hálftíma seinna var ég komin með afgerandi rembingsþörf og deyfingin næstum alveg farin. Þá stormaði inn valyrjusveit lækna og ljósmóður, 2 fæðingarlæknar, barnalæknir, ljósmóðir og læknanemi, allt konur og tóku til við að taka á móti börnunum. Ljósmóðirin studdi vel niður á spöngina svo ég fann alveg hvert ég átti að rembast. Ég þrýsti hælunum vel oní rúmið og rembdist og var drengurinn fæddur aðeins ca 15 mínútum seinna (kl 21 46). Ég fékk hann beint á brjóstið og læknarnir skáru á strenginn. Hann grét og var alveg yndislegur, pínulítill fannst mér og með fullt af hári. Hann fór svo á hitaborð til barnalæknis (minnir mig!) á meðan stúlkan fæddist. Ljósmóðirin fann engan koll heldur bara rass svo það var sónerað í hvelli og mikið rétt, hún var sitjandi. Þá var náð í búkka (!) og ég fór með fæturna þangað uppá og var bara nokkuð hress með það, það var alveg rífandi stemmning inná fæðingastofunni. Hún kom svo bara í einum eða tveimur rembingum, það var alveg ótrúlegt, ekkert mál fannst mér. Rassinn kom fyrst og þær snéru henni þannig að handleggirnir kæmu meðfram síðum. Ég fékk hana líka beint í fangið en sá ekki framan í hana fyrr en nokkrar mínútur voru liðnar, hún grét líka og var ennþá minni en bróðirinn og alveg fullkomin. Ég get tekið það fram að ég rifnaði örlítið og voru saumuð örfá spor sem varla er hægt að tala um!
Ég var alveg rosalega hátt uppi eftir þetta allt saman og sagði bara “give me five” við ljósmóðurina og þær voru allar alveg hæstánægðar með mig og börnin voru líka svo fín, hann tæpar 12 merkur og 48cm og hún rétt rúmlega 10merkur og 47 cm. Hún fór strax á brjóstið og var þar í ábyggilega klukkutíma, drengurinn var aðeins lengur að jafna sig, en var ekki þannig slappur að ástæða væri fyrir hann að fara á vökudeild og auðvitað vorum við ánægð með það. Ég fór á klósettið og fékk rosalegt kuldakast í kroppinn og hríðskalf, og kastaði svo líka upp, enda ekkert búin að borða síðan um daginn. Þegar ég var búin að fá smá næringu fékk ég lit í kinnarnar aftur og hlínaði þegar ég fékk lopapeysuna mína um mig. Um klukkan tvö um nóttina fórum við svo loksins niður á sængurkvennagang. Næsta sólarhring var ég með hræðilega mikla samdráttarverki í leginu þegar það var að dragast saman, það var eins og verstu hríðir og ég man ekki eftir svona slæmum verkjum eftir fyrstu fæðingu, en kannski var það líka af því að legið var jú stærra. Haföndunin kom því að mjög góðu gagni áfram eftir fæðinguna! Ég var í viku á sængurkvennagangi og kom brjóstagjöfinni nokkuð vel af stað og reyndi svona að jafna mig og safna þreki fyrir heimkomuna. Auðvitað fannst mér hræðilega erfitt að vera frá frumburðinum mínum, ég sá hana ekkert í heila viku og það var mjög erfitt sérstaklega fyrstu dagana. Ég ákvað svo bara að taka þann pól í hæðina að reyna að nota þennan tíma til að tengjast litlu börnunum. Fyrstu dagarnir og vikurnar heima voru erfiðir, og á tímabili var ég að gefast upp á brjóstagjöfinni, þau drukku svo oft og lengi í einu, en ég hélt út og þetta gengur allt alveg frábærlega í dag, elsta stelpan mín er svo dugleg og tekur þessu svo ótrúlega vel, samband mitt við barnsföður minn er “á batavegi” skulum við segja og börnin litlu eru náttúrulega algjörir gullmolar, vær og kær!
Lífið er bæði skrýtið og flókið og fer oft í óvæntar áttir. Aldrei hefði mig grunað ég ætti eftir að eignast tvíbura, en með hverjum deginum sé ég að börnin okkar eru mesta ríkidæmið og langbesta fjárfestingin, ég tala nú ekki um á krepputímum! Ég er svo þakklát fyrir að geta eignast börn og hafa eignast yndisleg börn sem hafa leitt mig í gegnum mikinn andlegan þroska og gefið mér svo ótrúlega mikið. Ég er svo ótrúlega rík. Ég óska öllum verðandi mæðrum til hamingju með það sem í vændum er og óska þess að þær hafi styrk til að treysta á sjálfar sig og sína visku í þeirri óvissuferð sem fæðingin er.

Tinna Sigurðardóttir
9.5.2008

Pin It on Pinterest

Share This