Fæðingin mín

Kæru jógagyðjur

Mig langar að deila með ykkur fæðingarsögunni minni þegar ég fæddi mitt þriðja barn.

Fyrir átti ég stelpu og strák. Bæði börnin komu í heiminn fyrir settan dag og því átti ég von á því að eiga fyrir settan dag. En að þessu sinni gekk ég fulla meðgöngu og fimm dögum betur. Það truflaði mig ekkert að ganga framyfir. Ég naut þess að vera ólétt og var staðráðin í að njóta hvers dags enda líklega um mína síðustu meðgöngu að ræða.

Ég vaknaði um fjögur leitið þessa nótt líkt og margar aðrar nætur til að pissa. Lagðist svo upp í rúm og ætlaði að halda áfram að sofa. Ég hafði verið með væga samdrætti af og til í marga daga en þegar klukkan var að verða fimm fann ég að samdrættirnir voru kröftugri en áður. Ég tók tímann og það voru 20 mínútur á milli samdráttanna. Þarna vissi ég að og að ég væri að fara að eiga. Ég vakti manninn minn um klukkan hálf sjö og sagði honum að nú væri komið að stóru stundinni. Þar sem að fæðing barns númer tvö hafði gengið mjög hratt vildi ég fara fljótt upp á deild. Við fórum því á fætur og tókum okkur til en ég var löngu búin að gera “tékklista” og var með dótið tilbúið. Ég bað manninn minn um að nudda bakið í samdráttunum. Um klukkan hálf átta hringdi ég upp á deild og sagði þeim að ég væri farin af stað og að ég vildi koma. Sú sem að ég talaði við byrjaði að spyrja mig hvað væri langt á milli. Á þessum tíma voru um 15 mínútur á milli samdrátta og sagði hún að það væri frekar langt fyrir fjölbyrju og spurði hvort ég ætti verkjatöflur. Ég sagði henni frá fyrri fæðingu og að ég vildi koma til þeirra strax. Í raun gaf ég henni ekkert færi á að biðja mig um að vera heima. Hún bað mig um að koma ekki fyrr en eftir klukkan átta þ.e. eftir að vaktaskipti hefðu farið fram því að það var mikið að gera á deildinni.

VIð lögðum af stað kl. 8:15. Það var brjálæðislega mikil umferð frá Garðabæ niður að Landspítala. Það var allt í góðu, því enn voru um 15 mínútur á milli samdrátta og ég var hin rólegasta. Hugsaði bara um að anda, slaka og njóta. Lagið hans Bubba “Þessi fallegi dagur” hljómaði í útvarpinu og okkur hjónunum fannst það eiga mjög vel við. Þetta var svo fallegur dagur og við spennt fyrir framhaldinu – komu barnsins okkar sem vissum ekki hvort væri stelpa eða strákur. Við komum við í bakaríi og bóndinn hljóp inn til að kaupa gúmmilaði handa okkur.

Ég vissi að ljósmæðrunum finndist ég vera að koma allt of snemma upp á deild og að þær myndu mögulega vilja senda mig aftur heim. Ég sagði við manninn minn að ég myndi vilja vera upp á spítala því ég vissi að ég væri að fara að eiga. Ég minnti hann á það að samkvæmt ljósmæðrum þá “bæri ég mig mjög vel í fæðingum.” Það var nefnilega þannig að þegar við eignuðumst okkar fyrsta barn 10 árum áður þá var ég fyrst send heim. En þegar ég kom aftur upp á spítala síðar þann sama dag sagði ljósmóðirin að það hefðu verið mistök að senda mig heim því ég hefði verið komin lengra af stað en hún áætlaði og notaði orðalagið að ég hefði bara “borið mig svo vel.” Ég minnti manninn minn líka á það hann væri “röddin mín” eins og við höfðum lært á parakvöldinu hjá Auði. Ég verð mjög einbeitt í mínum fæðingum, fer inn í “eigin heim” ef svo má segja og því mikilvægt að hann sé meðvitaður um minn vilja.

Klukkan níu vorum við komin upp á deild. Þar tók yndisleg ljósmóðir, hún Stella, á móti okkur. Hún setti mig í monitor. Fimmtán mínútur yfir níu kom samdráttur. Hún sagði að þó að það væri langt á milli samdrátta þá væru þeir kröfugir. Stella fór fram og lét mig vera áfram í monitornum. Viti menn nokkrum mínútum síðar fann ég að vatnið var að byrja að leka. Stella kom og mældi 6 í útvíkkun. Það kom annar samdráttur um hálf tíu og þá fór meira vatn. Ég fór úr mónitornum og þegar ég stóð upp fossaði vatnið niður eftir buxunum og niður á gólf. Ég fékk strax fæðingarstofu, draumafæðingarstofuna mína. Ég hafði átt bæði börnin mín í Hreiðrinu á sínum tíma og dreymdi um að fá slíka stofu aftur. Draumurinn rættist og eina stofan sem var laus var þessi, sannkölluð svíta. Stella kynnti mig fyrir ljósmóðursnema, henni Sophie, sem mér leist vel á að væri með okkur.

Samdrættirnir jukust mjög hratt eftir að vatnið fór – eiginlega of hratt – því ég var ekki með fullkomna stjórn ef svo má segja. Ég var bara rétt komin inn á stofuna og átti eftir að koma mér fyrir til að geta farið inn í eigin hugarheim og náð einbeitingu og ró. Ég settist á boltann og reyndi að borða smá. Stella sagðist ekki oft sjá konu borða í þessum aðstæðum enda gekk það hálf brösulega hjá mér. Ég óskaði strax eftir að fá að fara í baðið því ég vissi að það myndi hjálpa. Var komin í baðið um kl. 10. Það var æði, það hægði á hraðanum og ég náði stjórn á aðstæðum. Það er að segja, ég náði að anda rólega og slaka. Gat einbeitt mér, tekið á móti hríðunum og boðið þær velkomnar vitandi að þetta væri samvinna hjá mér og barninu mínu.

Maðurinn minn setti Grace diskinn á, gaf mér vatn, orkudrykk og súkkulaðikex. Mig langaði að prófa glaðloftið og lét Stellu vita af því. Ég hafði ekki notað það í fyrri fæðingum. Mér fannst það fínt og hélt því að mér þegar ég andaði inn í hríðunum en lét það frá mér þegar ég andaði út – löngu “haaa hljóði” eins og Auður hafði kennt. Ég óskaði eftir að fá nudd frá ljósmóður á mjóbakið í hverri hríð, það var mjög gott. Maðurinn minn gaf mér “hrufóttu” boltana og kaldan þvottapoka til að þurrka mér í framan á milli hríða. Hann notaði líka lavender sprayið og blævæng í hríðunum. Ég var slök og einbeitt í baðinu. Ljósmæðurnar og eiginmaðurinn hrósuðu mér mikið. Það hjálpar mjög að fá hrós og hvatningu. Hríðarnar jukust og bilið á milli þeirra styttist. Ekki leið á löngu þar til rembingsþörfin var komin og kl. 11:59 eftir aðeins einn rembing fæddist dásamleg stúlka.

Mér fannst mjög gott að eiga í baðinu og mæli með því.

Eftir fæðinguna hrósaði Stella ljósmóðir mér mikið og sagði að það hefði verið mjög gaman að fá að taka þátt í þessari fæðingu. Hún sagði að það væri magnað hvað ég þekkti líkama minn vel. Hún viðurkenndi að þegar ég kom upp á deild hefði hún upphaflega ætlað að senda mig heim. Ég hló og sagði “ég veit það.” Það frábæra er að ég vissi betur, ég hlustaði á líkama minn og þó að öðrum hafi þótt ég vera að fara of snemma upp á deild, þá fylgdi ég eigin sannfæringu. Ég hefði í raun ekki mátt vera seinni upp á deild, því vatnið fór að leka 20 mínútum eftir komuna þangað og ég hefði alls ekki viljað eiga eftir bílferð upp á spítala eftir það.

Kæru jógagyðjur, vona að þið njótið þess að anda og slaka vel á í jógatímunum hjá Auði sem og í fæðingunni ykkar sem framundan er. Auður er mögnuð og við erum lánsamar að fá að stunda jóga hjá henni. Það mun án efa gagnast ykkur. Gangi ykkur öllum ofsalega vel.

Bestu kveðjur,
S.Á.

Pin It on Pinterest

Share This