Fæðingarsaga tvíbura

 

Elsku Auður og jógabumbur

Mig langar að segja ykkur frá fæðingu tvíburanna okkar sem komu í heiminn 9. apríl 2015.

Ég átti bókaða gangsetningu þegar ég var komin 38 vikur á leið en miðað er við 38 vikur sem fulla meðgöngu hjá tvíeggja tvíburum. Dagana fyrir var ýmislegt reynt til að koma fæðingunni af stað á eðlilegan máta en ekkert gerðist. Í nokkrar vikur hafði ég haft smá fyrirvaraverki en alls ekki mikla. Ég varð því að sætta mig við að fara í gangsetningu. Nóttina fyrir átti ég mjög erfitt með að sofa. Ég held að það hafi verið alls konar tilfinningar og hugsanir sem gerðu það að verkum. Auðvitað var ég mjög spennt að fá börnin mín í fangið og einnig örlítið kvíðin fyrir fæðingunni og ég vonaði að allt myndi ganga vel og að börnin yrðu heilbrigð.

Um morguninn á gangsetningardegi kláruðum við að pakka í tösku og tókum nóg af afþreyingu með okkur, prjónadót og tímarit og slíkt því ég hafði heyrt að stundum getur tekið tíma að koma fæðingunni af stað. Við fórum með drenginn okkar sem er að verða 6 ára á leikskólann og það var skrýtin tilfinning þegar leikskólakennararnir óskuðu mér góðs gengis því að nú væri ég að fara á fæðingardeildina að fæða börnin. Ég fann á leiðinni á Landspítalann að ég var ekkert kvíðin lengur. Mér fannst ég vera tilbúin og til í þetta verkefni, eins og þegar maður fer í próf og hefur lært vel, manni hlakkar bara til að takast á við verkefnið. Ég hafði verið í jóga og undirbúið mig vel fyrir fæðinguna og einnig átti ég jákvæða reynslu af fæðingu frumburðarins.

Við vorum mætt á Landspítalann kl 8:30 og þar tók á móti okkur yndisleg ljósmóðir. Ég fór í monitor þar sem sást að hjartslættir barnanna voru sterkir og flottir. Vegna verkfalla ljósmæðra var ekki alveg vitað hvort að ég færi í gangsetninguna en þar sem ég var gengin þetta langt á leið og einnig með háan blóðþrýsting var samþykkt að gangsetningin myndi vera gerð og var það eina gangsetningin þann daginn sem ekki var frestað.

Klukkan 9:30 skoðar ljósmóðirin mig og finnur þá að leghálsinn er styttur og ég var með um 2 í útvíkkun og nær hún því að sprengja belginn og koma þannig fæðingunni af stað. Eftir það fann ég ekki mikla verki og hvíldi mig bara ýmist í lazyboy eða í rúminu. Um hádegi fengum við að borða og þá var einnig sett upp nál og ég fékk hríðarörvandi dreypi. Þegar dreypið var sett upp þurfti ég að fara í monitorinn aftur. Erfitt var að finna hjartslættina með monitornum, en ég var með tvo monitora á bumbunni til að meta sitthvorn hjartsláttinn en þeir sýndu það sama, þannig að nemarnir hafa verið að nema sama barnið og því var sett upp elektróða í kollinn á neðra barninu til að meta hjartslátt þess og svo var ég með monitor á bumbunni til að meta hjartslátt efra barnsins, þannig að ég var nokkuð bundin í monitornum og gat ekki mikið hreyft mig. Elektróðan var sett upp um kl 12:30 og var ég þá með 3 í útvíkkun. Fljótlega eftir að dreypið var sett upp fór ég að fá harðar hríðar og verki sem ég andaði mig í gegnum með haföndun. Mér leið vel standandi og gerði stóra mjaðmahringi og þá setti Hilmir Grace diskinn í og mér fannst ég ná vel stjórn á verkjunum og hugsaði hvað það væri gott að ég væri byrjuð að finna þetta mikla verki því þá væri væntanlega að styttast í að við fengjum börnin okkar. Ljósmóðirin var inni hjá okkur, fylgdist með mér og monitornum og gluggaði í blöðin og Hilmir dottaði í Lazyboy. Það var semsagt mjög notaleg og róleg stemmning inni á herberginu. Um kl 15 gusaðist mikið legvatn frá mér og við það fór elektróðan af kolli barnsins og setja þurfti upp aðra og þá fann ljósmóðirin að útvíkkunin var orðin 5. Mér leið mjög illa út af liggjandi þegar setja þurfti elektróðuna þannig að ég stóð aftur upp og hélt áfram að dilla mér í mjöðmunum með því að gera stóra mjaðmahringi. Um kl 15:30 segi ég við ljósmóðirina að mér líði eins og ég þurfi að rembast og sagði að það væri örugglega bara út af því ég fyndi svo mikinn þrýsting niður í endaþarminn þar sem það gæti nú varla verið að það væri kominn tími til að rembast vegna þess að 30 mínútum áður hafði ég bara verið með 5 í útvíkkun. Ég bað ljósmóðurina um að skoða mig því mér fannst að ég yrði að fá deyfingu þrátt fyrir að hafa neitað henni fyrr um daginn, ég hugsaði að ég ætti örugglega marga klukkutíma eftir og myndi ekki höndla verkina mikið lengur. Ljósmóðirin skoðar mig og þá var ég komin með 10 í útvíkkun, ég trúði því varla og ég held að ljósmóðirin hafi þurft að segja það nokkrum sinnum við mig áður en það síaðist inn.

Í fæðingu sonar okkar fyrir um 6 árum gekk mér vel að takast á við verkina en ég upplifði það að ég gat ekki talað, ég var bara það upptekin við að einbeita mér að verkjunum og fór inn á við. Ég hafði rætt við Hilmi fyrir fæðingu að ef ég myndi aftur eiga svona erfitt með að tjá mig yrði hann að tala fyrir mig og reyna að lesa í tjáskipti mín og spyrja mig hvort það væri eitthvað sem hægt væri að gera fyrir mig. Þetta heppnaðist stórkostlega. Sem dæmi má nefna að ljósmóðirin spurði hvort ég vildi prófa glaðloftið og þá leit Hilmir í augun mín og ég blikkaði þeim þannig að hann áttaði sig á því að ég vildi prófa það. Hilmir hélt svo á glaðloftinu fyrir mig og ég gaf honum merki með augnsambandi í hvert skipti sem ég vildi fá það. Grace diskurinn kláraðist og þá fór ég að humma ong namo og þá kveikti Hilmir aftur á disknum. Þetta var algjörlega frábærlega gert hjá honum. Hann hélt í hendina á mér, hélt á glaðloftinu og kyssti mig svo reglulega og hrósaði mér og sagði að ég stæði mig svo vel.

Í tvíburafæðingum er mikill viðbúnaður og margt heilbrigðisstarfsfólk sem þarf að vera til taks ef eitthvað kemur upp á. Þegar ég var komin með fulla útvíkkun þá fylltist herbergið af fagfólki á augabragði, tveir barnalæknar, tvær ljósmæður, tveir fæðingarlæknar og allavega tveir nemar. Ég fann fyrir smá óþægindum á þessum tímapunkti ég hafði séð fyrir mér að þetta flotta fólk yrði komið í herbergið nokkuð áður en ég myndi byrja að rembast og bíða eftir að börnin kæmu en í okkar tilfelli voru þau hlaupandi inn á sama tíma og litla prinsessan okkar skýst í heiminn eftir aðeins þrjá rembinga. Þegar hún var komin í heiminn þurfti fæðingarlæknir að halda um magann minn til að reyna að stýra seinna barninu rétt niður í grindina, því hættan er að ef seinna barnið fer þvert niður í grindina þá þarf að taka það með keisara. Það kom mér á óvart hvað mér fannst sárt þegar læknirinn hélt um magann en hún var annars frábær og nýtti hvert tækifæri í að hrósa mér fyrir hvað ég stóð mig vel. Geggjað að fá svona hvatningu. Þegar seinna barnið, drengurinn okkar, kom niður þá heyrði ég að heilbrigðisstarfsfólkið velti því fyrir sér hvort það væri rass, höfuð eða fótur sem væri að koma. En belgurinn var órofin og var mjög þaninn sem trúlega gerði það að verkum að þau áttu erfitt með að finna í hvaða stöðu drengurinn var. Drengurinn okkar kom svo í heiminn sitjandi og í belgnum 36 mínútum á eftir systur sinni. Ég hafði heyrt á meðgöngunni að yfirleitt væri fæðing seinna barnsins nokkuð auðveld þar sem fyrra barnið væri búið að ryðja veginn en það var ekki svoleiðis í mínu tilfelli. Mér fannst ég þurfa að hafa meira fyrir fæðingu seinna barnsins, trúlega vegna þess að hann kom sitjandi. Mér leið nokkuð illa eftir fæðinguna, ég missti töluvert magn af blóði og fékk samdráttarlyf til að draga legið saman sem fóru afar illa í mig. Ég fékk því krílin mín ekki í fangið fyrr en einni og hálfri klukkustund eftir fæðingu. Á þeirri stundu leið mér svo vel, ótrúlegt að fá tvö heilbrigð börn í heiminn og eiga auk þeirra eitt fyrir, algjört kraftaverk. Ég horfði á litlu krílin og manninn minn til skiptis og trúði því varla hvað við erum heppin.

Upplifun mín af fæðingunni var mjög góð. Fæðingin gekk vel og var nokkuð hröð, seinna barnið fæddist aðeins um 7 klukkustundum eftir að ég var sett af stað. Ég fékk frábæra ljósmóður sem var með okkur allan tímann jafnvel þótt að strákurinn hafi fæðst eftir að hennar vakt lauk, hún kyssti mig meira að segja bless í lok dagsins, ég er svo þakklát fyrir að hafa lent á henni. Hilmir stóð sig frábærlega og er ég mjög glöð að hafa rætt það við hann fyrir fæðingu hvernig ég vildi hafa hlutina því hann var einskonar málsvari minn þegar ég var of upptekin til að tala.

Elsku Auður! Takk kærlega fyrir mig, jógað hjálpaði mér mikið í fæðingunni og elsku jógabumbur – gangi ykkur vel.

Kveðja Karen Emilsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This