Fæðingarsaga litla Ljúfs

til baka

Var sett 20 ágúst

fæddur 24 ágúst 2011 í Hreiðrinu

Þyngd: 3705 gr.

Lengd: 52 cm

15 merkur.

Ég var búin að vera með fyrirvaraverki í nokkra daga sem duttu svo alveg niður þegar ég var gengin þrjá daga framyfir settan dag. Þá fann ég þörf til að draga mig í hlé og bjó í rúminu í heilan dag þar sem ég gerði fátt annað en að sofa. Mér fannst lítið benda til þess að það væri eins stutt í litla manninn minn og var í raun og veru. Um kvöldið var ég ennþá alveg verkjalaus og fór þá að þrífa heimilistæki með tannbursta af mikilli ákefð! Stuttu eftir að ég fór að sofa rúmlega eitt um nóttina fékk ég þrjá sterka samdráttarverki. Ég var ekki búin að reyna nein trix til að koma sjálfri mér af stað, enda hafði ég allan tímann fullkomlega trú á því að barnið myndi koma þegar bæði ég og það værum tilbúin í ferðalagið. Ég stundaði mikið af hugleiðslu á meðgöngunni þar sem ég upplifði þessa tenginu við barnið, að við værum í þessu saman og að við gætum treyst því að náttúran vissi hvað hún væri að gera.

En aftur að verkjunum… Ég fann þörf til að fara á klósettið og sá að slímtappinn var að fara. Mér varð mál að gera númer tvö og fékk hressilega úthreinsun þar í þokkabót. Í kjölfarið urðu verkirnir strax hver öðrum sárari þannig að ég fór að taka tímann á Contractionmaster.com og sá að verkirnir voru að koma ansi þétt eða með 4-6 mínútna millibili. Ég áttaði mig á því að nú væri fæðingin að hefjast en varð pínu hissa hvað verkirnir voru strax orðnir sárir, hafði búist við því að malla í gang hægt og rólega eins og með frumburðinn minn. Þorði ekki annað en að hringja upp á Hreiður og fékk að koma í tékk því ég þurfti að hafa mig alla við að anda mig í gegnum þessa fyrstu verki.

Maðurinn minn varð mjög skemmtilega tjúnnaður þegar ég vakti hann og hann gerði sér grein fyrir því hvað væri að gerast. Hann fór strax að græja og gera með að koma dótinu inn í bíl. Ég tók eftir kyrrðinni í loftinu þegar ég gekk að kvennadeildinni á milli hríða, man að mér þótti vænt um að sjá stjörnubjartan himinn og að það var rísandi tungl sem lýsti allt svo fallega upp. Nýtt tungl, nýtt upphaf, nýtt líf. Ég tók líka eftir því að inniskórnir mínir voru ekki alveg að þola bleytuna á bílaplaninu eftir rigninguna, en ég hafði ekki haft það í mér að koma mér í almennilega skó með þessa sterku verki, bjúguð og með grindargliðnunina blessuðu.

Árdís Kjartansdóttir ljósmóðir tók á móti okkur og mér leist strax svo vel á þessa yndislegu konu. Hún mælir útvíkkun klukkan þrjú og þá er ég komin með 3 cm í útvíkkun. Hún veltir því fyrir sér hvort ég sé komin almennilega af stað og stakk upp á því að við myndum fara aftur heim þar sem við búum svo nálægt spítalanum en ég fullvissaði hana um að barnið væri að koma og að hann væri ögn að flýta sér, það væri ekki spurning. Enda er hann kominn í heiminn aðeins fjórum klukkutímum síðar.

Við fengum fljótlega að komast í fæðingarherbergi og ég fékk að fara í langþráða sturtu þar sem ég ýmist dúaði á yoga boltanum mínum undir sturtunni eða lét bununa renna á mjóbakið á mér. Ég notaði haf öndunina sem ég lærði í meðgöngujóganu hjá Auði til að koma mér í gegnum verkina og náði að slaka vel á þrátt fyrir að mér fannst svakalega kallt inni í herberginu og hálf skalf af kulda. Klukkan fjögur er svo búið að renna vatni í baðið fyrir mig. Það var unaðslegt að komast loksins í baðið og ég fann hvernig hitinn linaði líkamann en mér fannst samt eins og að hríðarnar hörðnuðu í vatninu en ljósmóðirin sagði að þær væru bara alltaf að ágerast í styrkleika og að það hefði ekkert með vatnið að gera.  Mér fannst alls ekki gott að hreyfa mig þegar ég fékk hríð, fannst eins og að þær mögnuðust upp ef ég hreyfði mig úr stað þannig að ég kom mér þægilega fyrir og reyndi að slaka vel á í öllum líkamanum. Ég lá lengi fljótandi á maga með höfuð og handleggi á kantinum eða loftkoddanum. Fljótlega fannst mér ég þurfa að æla en það var nóg að anda að mér piparmyntudropum eftir þörfum til að halda ógleðinni niðri. Klukkan fimm er ég komin með 6 í útvíkkun.

Allan tímann sem ég lá í baðinu notaði ég það sem ég hafði lært í meðgöngujóganu, ég andaði, slakaði og treysti líkamanum mínum. Ég gaf eftir og tók eina hríð fyrir í einu og fannst ég ná ágætlega tökum á sársaukanum með því að anda mig í gegn. pössuðu þau sig alltaf þegar ég fékk hríð. Þó að við maðurinn minn höfðum farið á tvö nuddnámskeið á meðgöngunni mátti hann samt ekki snerta mig heldur, ég þoldi ekkert áreiti en mér fannst gott að heyra á milli hríða hvernig allt væri nú að ganga og að ég væri að standa mig vel.

Með hverri hríð varð ég betri og betri í að nota öndunina til að komast í gegnum verkinn. Ég fann það fljótlega að það sem skipti lykimáli var að fara “rétt” inn í hríðina alveg frá upphafi. Ef eitthvað truflaði mig þegar ég fann að hríðin var að byrja, til dæmis ég að hugsa eitthvað neikvætt eða gleyma að anda rétt frá byrjun þá var eins og að ég færi “skakkt” inn í hríðina og fann þá meira fyrir sársaukanum. Það sem virkaði fyrir mig var að bjóða hríðina velkomna þegar hún kom, finna aðeins fyrir henni áður en ég byrjaði að anda og draga síðan andan mjög hægt og djúpt inn alveg þangað til að lungun komu ekki meira lofti fyrir. Síðan hélt ég í mér andanum í smá stund áður en ég gerði haföndun út og þá var eins og að ég væri að blása sársaukanum og hríðinni út úr líkamanum, mjöööög hægt og rólega, og fann þá hvernig sársaukinn minnkaði. Þetta var svolítið eins og að vera á andlegu brimbretti, að anda í takt við hríðina og vera akkúrat á milli inönndunar og útöndunar rétt fyrir hápunkt sársaukans. Mér fannst hríðarnar vera eins og rísandi og lægjandi öldur og það var gott að vita að þær tækju alltaf enda og að ég fengi alltaf endorfínverðlaun eftirá.

Stundum gerði ég langar lágværar stunur í útönduninni til að breyta til. Þetta voru frekar unaðslega hljómandi stunur, þó að ég segi sjálf frá, og það mætti halda að mér hefði liðið vel þarna miðað við hljóðin sem ég gaf frá mér, en þessi hljóð róuðu mig. Eftir að hafa lært það á parakvöldinu hjá Auði að kossar frá manninum og að örva geirvörturnar gætu hjálpað til í ferlinu fannst mér ekkert óeðlilegt við það að stynja svona, næstum því á kynferðislegan hátt. Ég hvet ykkur til að reyna það. Maðurinn minn hefur sagt mér núna eftir á að það var eins og að ég hyrfi inn í annan heim þegar ég var í hríðunum og að það hafi verið mikill kraftur og einbeiting í mér. Engin örvænting eða ótti, ég tók bara eina hríð fyrir í einu og var alveg sama um það hvernig ég leit út og hvort það sem ég var að gera var “rétt” eða ekki. Ég fann mína leið til liðast í gegnum hríðarnar. Þegar maðurinn minn setti á yndislega Grace diskinn, sem hefur fylgt mér alla meðgönguna, fann ég hvernig ég slakaði enn betur. Ég hef verið að grínast með það núna eftir á að ég var eiginlega bara í jógatíma í þessari fæðingu.

Ef ef ég fékk extra langa hríð fannst mér gott þegar ljósan minnti mig á að þegar hríðin er extra löng eða erfið gat ég reiknað með því að ég væri búin að opna mig meira. Sársaukinn væri jákvæður og að það væri núna styttra í barnið. Ljósmóðirin leyfði mér annars að algjörlega ráða ferðinni sjálf. Hún var til staðar fyrir mig ef ég þurfti á henni að halda og tékkaði á útvíkkun þegar ég bað hana um það en mér fannst einmitt svo hvetjandi að heyra hversu hratt útvíkkunin var að ganga fyrir sig og það hjálpaði mér til að umbera sársaukann betur, setjast á hækjur mér í karinu til að opna enn betur þó að það var sárara. Ég reyndi að “njóta” sársaukans og hleypa honum að.

Klukkan 6 er dagsbirtan farin að lýsa upp herbergið. Ljósmóðirin hvetur mig til að fara á klósettið að pissa. Hún segir að ég megi ráða hvað ég geri, að ég megi líka alveg pissa bara í vatnið því það væri gott að tæma blöðruna til að búa til meira rými fyrir barnið. En hún hélt að það myndi flýta fyrir ferlinu ef ég myndi standa upp og hreyfa mig aðeins. Ég tók þessu sem áskorun og vildi láta reyna á þetta. Ég fékk hinsvegar svakalegan kuldaskjálfta þegar ég stóð upp því það var ennþá svo kallt í herberginu. Ég ætla ekki að lýsa því hvað það var viðbjóðslega sárt að fá hríðar svona skjálfandi og samanherpt, ég mæli sko ekki með því. en ég vissi ekki þá að ég var komin með nánast fulla útvíkkun og barnið komið í heiminn klukkutíma síðar. En mér tókst að hraða mér inn á klósett á milli hríða og drífa þetta af og var fljótlega komin ofan í pott aftur með harðari og flottari hríðar fyrir vikið. Ljósmóðirin hafði rétt fyrir sér, þetta brölt gerði sitt til að örva hríðarnar. Við vorum sammála um að okkur langaði að reyna að klára þetta fyrir vaktaskipti klukkan átta um morguninn, ég fór brátt að finna fyrir rembingsþörf efst í bumbunni og setti upp kryppu eins og til að ýta barninu niður síðasta hjallann áður en ég færi á fullt í að fæða hann. Ég sat á hækjum mér þegar þetta var og fann mjög vel hvernig barnið boraði sér lengra niður fæðingarveginn. Mér fannst magnað að finna hvað þetta var mikið samstarf hjá okkur. Þetta var samt orðið alveg hrikalega sárt og ég man að ég sagðist ekki geta meir á ákveðnum tímapunkti en ljósmóðirin sagði að það væri flott, því alltaf þegar konurnar segjast ekki geta meir er barnið alveg að fara að koma. Ég vissi að hún hafði rétt fyrir sér og harkaði enn betur að mér.

Hérna var síðan ákveðið að sprengja belginn en ég var með fulla útvíkkun og hríðarnar orðnar hræðilega sárar hvort eð er. Ég fann fyrir ótta en ljósan gat róað mig og ég hélt áfram að anda mig í gegn. Ég panikkaði aðeins í fyrstu rembingshríðunum eftir að belgurinn var sprengdur því að sársaukinn var orðinn óbærilegur. Ég spenntist öll upp og gaf frá mér undarleg hljóð. Þarna fann ég muninn á því hvað hríðarnar urðu strax sársaukafullari bara við það að verða hrædd. En síðan fann ég hvernig hausinn á barninu færðist neðar og hrópaði upphátt að nú væri barnið að koma. Þá var kallað á aðra ljósmóður til að taka á móti, ég lagðist á bakið í vatninu og þær héldu sitthvoru lærinu til hliðar og maðurinn minn kom og studdi við mig aftanfrá og nuddaði á mér kjálkana sem mér fannst ótrúlega gott á þessum tímapunkti. Hann kyssti mig líka nokkrum sinnum og mér fannst það svo hughreystandi. Núna mátti ég byrja að rembast og koma barninu mínu út. Það var ekki lengi gert, hann kom í tveim eða þremur rembingum, fyrst hausinn og síðan allur kroppurinn. Klukkan 07:18 var hann kominn í fangið á mömmu sinni.

 

Litli maðurinn kom í heiminn með framstætt höfuð, sem sagt horfandi upp til himins, og þegar hann kom upp úr vatninu hélt hann höfðinu vel á lofti og skimaði í allar áttir. Ljósmóðirin sagði að þetta yrði líklega landkönnuður. Hann rétt lét vita af sér með stuttu gargi en var svo bara hinn spakasti og horfði á mömmu sína. Það kom fljótt í ljós að það var barnabik í legvatninu og nýfædda barnið mitt var allur þakinn ljósgrænni fósturfitu þegar hann kom í fangið á mér. Mér fannst það strax heillamerki að fá grænt barn í heiminn, eins lífrænt þenkjandi og ég er. Ég var svo fegin að þessu væri lokið en átti fullt af orku eftir því að ég hafði ekki búist við því að ég yrði svona fljót að þessu. Ég sagði ljósunni að ég vildi bara fá að fæða fylgjuna strax og vera búin að þessu og hún kom út  nokkrum mínútum seinna. Ég rifnaði mjög lítið og þurfti bara nokkur örfá spor. Mér var sagt eftir á að þetta hefði verið falleg fæðing og að  ég hefði staðið mig eins og hetja. Ljósan sagði að ef barnið hefði ekki verið með höfuðið framstætt hefði hann bara hreinlega lekið út úr mér.

Elsku bumbulínur, Auður jógagyðjan mín og aðrir yndislegu jógakennarar í jógasetrinu, ég er svo þakklát fyrir alla þá reynslu og þekkingu sem ég öðlaðist í tímunum með ykkur. Öll gullkornin og ráðin, hvatningin og það að læra að treysta algjörlega á öndunina og eigin líkama, þessi reynsla undirbjó mig svo vel fyrir fæðinguna mína. Ég andaði barnið mitt í heiminn og notaði ekkert annað en hana í öllu ferlinu. Fæðingin tók 5,5 klukkutíma frá fyrsta verk og þangað til barnið var komið í heiminn. Fullkomin jógafæðing í allastaði og ég með fulla meðvitund allan tíman. Ég óska ykkur öllum góðs gengis og munið að flýta ykkur hægt og njóta hvers dags.

Pin It on Pinterest

Share This