Fæðing er ekkert að óttast

Elsku lífsgyðjur og kæra vitra Auður

Litla stúlkan okkar kom í heiminn 25. júní sl. eftir 40v og 5d meðgöngu. Um kl. 4:00 á fimmtudagsmorgni vaknaði ég og fann strax að það var eitthvað farið í gang. Ég gat ómögulega sofnað aftur og það fyrsta sem kom upp í huga mér voru ýmis praktísk atriði. Ég varð að ná að klára að baka súrdeigsbrauðið sem var að hefast í ísskápnum, ég átti eftir að kaupa mér aðgang að Spotify svo að barnið kæmi ekki í heiminn undir auglýsingardrunum og svo fannst mér alveg nauðsynlegt að taka aðeins til. Að þessu loknu lagðist ég aftur upp í og reyndi að slaka eins vel á og ég gat. Ég byrjaði ósjálfrátt að anda hafönduninni strax í fyrstu hríð. Ég náði ekki að sofa en slakaði vel á á milli hríða og passaði mig að borða á meðan ég hafði matarlyst. Mér fannst rosalega gott að anda haföndun í hríðunum og hrista á mér mjaðmirnar. Um kl. 15:00 vildi ég fara útí garð að drekka kaffi í sólinni og klöngraðist út um eldhúsgluggann okkar. Svo stóð ég eins og sannur hippi á tánum í grasinu með sólina í andlitinu og andaði mig í gegnum hríðarnar á milli kaffisopanna. Á meðan blés Raggi upp laugina inní stofu svo að hún yrði tilbúin, en við ætluðum að fæða heima. Um kl. 16:00 voru hríðarnar farnar að aukast og ég vildi leggjast uppí. Ég náði að sofa í nokkurn tíma og þegar ég vaknaði aftur um klukkan 18 fannst mér hríðarnar vera orðnar reglulegri og með stuttu millibili. Ég hringdi í Arney ljósmóður og hún ákvað að kíkja á okkur. Ég hafði búið mig undir langa fæðingu og sársaukafullar hríðar og bjóst við því að ég væri kannski rétt komin tvo í útvíkkun. Ég var hins vegar komin í sex í útvíkkun og því tímabært að fara í laugina. Það var ólýsanlega gott að komast í vatnið og ég lagðist á laugarbrúnina með fæðingarbolta í hendinni, þrýsti á þriðja augað og andaði haföndun í gegnum hríðarnar sem urðu nú sterkari. Á milli hríða spreyjaði Raggi lavanderspreyinu yfir mig. Ekki hefði ég trúað hvað örfáir vatnsdropar gætu verið dásamlegir. Ég var fljótt komin í tíu í útvíkkun en belgurinn sprakk ekki og barnið virtist hafa það svo voðalega notalegt að það ætlaði e.t.v. ekkert að koma út. Ég skipti um stellingu, prufaði að standa upp og labba á klósettið, fór aftur í laugina en ekkert gekk. Ég purraði eins og hestur, eins og Ina May Gaskin talar um, og fann að það gaf mér mjög mikinn kraft. Loksins sprakk belgurinn og ég hélt að nú myndi þetta gerast. En barnið var hinsvegar enn alveg rólegt, það var ekkert endilega á leið út og hjartslátturinn hjá því var í góðu lagi. Arney lagði til að koma inní rúm og prufa nýjar stellingar til að nýta okkur þyngdaraflið. Við prufuðum ýmsar stellingar, m.a. var ég á fjórum fótum og Hildur, aðstoðarljósmóðir, notaði hitapoka og handklæði eins og rebozosjal. Það gerðist eitthvað en ekkert ofboðslega mikið. Arney sagði að við skildum prufa örlítið lengur en annars þyrftum við að huga að því að fara uppá spítala, einfaldlega vegna þess að ég væri orðin svo þreytt, enda búin að vera í rembing í bráðum fjóra tíma. Arney sagði mér að fá mér smá hunang til þess að fá orku og sagði Ragga svo að fara að hafa spítalatöskuna til. Mín fyrsta hugsun var að ég nennti með engu móti að fara að klæða mig í föt, ég gæti alveg klöngrast uppí bíl en ég gæti ekki verið allsber alla leiðina. Það var eins og barnið væri mér alveg sammála því þegar Raggi setti síðustu hlutina í töskuna fór kollurinn loks að koma. Litli ljósberinn okkar koma svo í heiminn á þeim ótrúlega tíma 23:59, aðeins einni mínútu frá því að eignast annan afmælisdag, fullkomin lítil stúlka með ofboðslega mikið þykkt rautt hár.

Ég verð að fá að deila örlítið upplifun minni á heimafæðingum, bara ef einhver skildi vera að hugsa um slíkt. Ég hef alltaf verið mjög hlynnt því að boðið sé uppá heimafæðingu en þar sem þetta var mitt fyrsta barn fannst mér einhvernveginn að ég ætti að eiga það á spítala. Mánuði fyrir settan dag var ég langt komin með bókina hennar Inu May Gaskin, sem ég mæli með, og þá ákváðum við að fara og hitta Hrafnhildi og Arney í Björkinni og kynna okkur málið. Við ákváðum samstundis að við vildum fæða heima. Ég er alls ekki á móti því að fæða á spítala og mér finnst að konur eigi að fylgja sínu eigin innsæi í öllu ferlinu, hvort sem um ræðir fæðingu á spítala eða heima, með eða án deyfilyfja. Við vitum sjálfar hvað er best fyrir okkur og barnið okkar. Á þessum tíma stefndi í að það yrði ennþá verkfall, það var útlit fyrir að það yrðu margar fæðingar og svo búum við svo gott sem við hliðiná spítalanum svo það hefði aldrei verið langt að fara. Mér fannst líka mjög gott að hugsa til þess að Raggi yrði á sínum heimavelli og hefði þannig meira hlutverk. Ég vildi reyna að eiga sem náttúrulegasta fæðingu til þess að finna kraftinn í mér og barninu til að koma því í heiminn. Þessi ákvörðun, að fæða heima, sannfærði mig í þeirri trú að fæðing sé ekkert að óttast, hún er kraftmesta lífsupplifun sem við getum gengið í gegnum. Núna finn ég að þessi ákvörðum var algjörlega rétt fyrir okkur og ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fætt heima. Mér finnst ómetanlegt að hafa haft sömu ljósmæður í mæðraverndinni, alla fæðinguna og í heimavitjuninni en þess fyrir utan eru þær Hrafnhildur og Arney ótrúlegar og yndislegar manneskjur með óbilandi áhuga á starfi sínu og bera virðingu fyrir öllum viðhorfum. Ég þurfti að hafa mig alla við að halda aftur að tárunum þegar síðustu heimavitjuninni lauk, mér var farið að þykja svo ógurlega vænt um þær.

Ég get heldur ekki ímyndað mér hvernig hægt sé að fara í gegnum fæðinguna án þess að hafa verið í jóganu hjá Auði. Ég nýtti mér allt sem ég lærði og vel það og ég get ekki beðið eftir að koma í mömmujóga með rauðhausinn minn litla. Njótiði vel elsku lífsgyðjur og ég vona að þið farið allar í gegnum góða fæðingu á ykkar forsendum og eftir ykkar eigin innsæi.

Jógakveðjur

Ragnheiður Maísól.

 

litlaljon

 

Pin It on Pinterest

Share This