Fæðing táslu2

Til baka

Elsku Auður og jógagyðjur. Hérna kemur fæðingasagan mín.

Ég stundaði jóga alla meðgönguna, fyrst í kundalini og svo eftir 3 mánuði meðgöngujóga. Það kom ekki eitt augnablik þessa 9 mánuðum sem ég kveið fyrir fæðingunni og þakka ég Auði og jóganu fyrir það. Ég var svo rosalega róleg og tilbúin í þetta enda taldi ég mig vera með háan sársaukaþröskuld og mikið hörkutól. Ég var sett 29. ágúst en ekki kom tásla þá, þannig að við hjónin reyndum öll hugsanleg ráð, kynlíf, göngur, sterkur matur, te, nudd á geirvörtum os.frv. Þann 1. Sept hreyfði ljósmóðirin okkar við belgnum og þá fór eitthvað að gerast. Ég ákvað að taka því rólega, bakaði speltbrauð og heilsukökur til að eiga í frystinum en þurfti oft að halda mér í eldhúsborðið þegar harður samdráttur gekk yfir. Klukkan 8 voru verkirnir orðnir stöðugir, með 5-8 mín millibili. Ég mældi tímann og klukkan 23 var mér hætt að standa á sama. Við tókum saman dótið og fórum upp á hreiður en allt kom fyrir ekki, ég var bara með 2 í útvíkkun og var þess vegna send heim. Ljósmóðirin bað okkur um að koma aftur þegar samdrættirnir væru með 2-3 mín millibili. Við fórum heim, ég fór í bað og svo sátum við saman á rúmstokknum, rugguðum okkur fram og tilbaka og maðurinn minn nuddaði á mér bakið. Þetta var góður tími, ég hugsaði með mér hversu yndislegt þetta væri, verkirnir orðnir slæmir sem hlaut að þýða að stutt væri í barnið okkar. Klukkan 03.00 fór vatnið og við drifum okkur aftur á hreiðrið. Verkirnir voru orðnir mjög slæmir og var ég þess vegna viss um að útvíkkun væri orðin töluverð. En nei, þvílík vonbrigði, ennþá bara 2-3. Ég var þó allavega komin í fæðingu, fyrst vatnið var farið. Við fengum úthlutað herbergi og þar vorum við hjónin í 12 tíma án þess að nokkuð gerðist. Ég prófaði allt sem í boði var, bað, nálastungur, bolta, grjónapúða en ekkert virkaði fyrir mig. Ég gat ekki talað, vildi helst sitja á rúmstokknum og láta nudda á mér bakið. Maðurinn minn var sá allra mesti klettur sem til er. Hann nuddaði mig stanslaust í 15 tíma og andaði með mér haföndun. Hvíslaði þú getur þetta í eyrað á mér og minnti mig á að barnið væri á leiðinni. Klukkan 14 mældi ljósmóðirin útvíkkun og enn og aftur vonbrigði því hún var ekki komin lengra en 4. Ég þurfti að fá dripp í æð til þess að koma þessu af stað. Ég grátbað um mænudeyfingu enda átti ég enga orku eftir í líkamanum. Ég þurfti að æla eftir hverja hríð en hafði ekki orku til þess. Ég bara gat ekki meir og það voru þvílík vonbrigði og erfitt að viðurkenna það fyrir sjálfri mér. Ég sem ætlaði að gera þetta svo náttúrlega, las ekki einu sinni kaflann um mænudeyfingu í foreldrafræðslunni. Ég var svo handviss um að ég gæti þetta en þegar þarna var komið við sögu gat ég ekki meir. Ljósmóðirin sem var hjá okkur, ljósmóðir nr. 2 reyndi að draga úr þessu, þetta væru ekki svo harðir verkir og eitthvað bla bla bla. Ég hefði getað kýlt hana því mér fannst hún vera að gera lítið úr þessari baráttu sem ég var að ganga í gegnum. Hún bað mig um að bíða, þetta var allt mjög mikil bið. Það var ekki pláss á fæðingagangi o.s.frv. Kl. 16 fékk ég mænudeyfingu og hvílík himnasæla. Ég get ekki líst því. Ég gat lagt mig á meðan mestu hríðarnar gengu yfir og svo var komin ný ljósmóðir sem var svo yndisleg. Þarna gátum við hjónin endurhlaðið orkuna. Kl. 20 var mæld útvíkkun og viti menn, ég mátti rembast og það gerði ég svo sannarlega. Yndislega fallega stelpan okkar var komin í heiminn kl. 21.04. Ofboðaslega nett 12 merkur og 47.5 cm. Tilfinningin við að fá barnið í fangið var ólýsanleg, við hágrétum öll saman, litla fjölskyldan. Hún goggaði sig beint á brjóst og við stoltu foreldrarnir tókum varla eftir fylgjufæðingu og saumaskap meðan við skoðuðum þetta litla kraftaverk. Móðurhlutverkið er stórkostlegt.
Þó að fæðingin hafi verið löng og erfið hugsa ég aldrei um hana sem neikvæða reynslu. Það besta sem hægt er að gera er að ákveða ekki of mikið, heldur hlusta á sjálfan sig, hvar maður er staddur og hugsa rökrétt og án fordóma um hvað sé best að gera. Fæðingin færði mig og manninn minn nær hvor öðru. Þessi lífsreynsla er eitthvað sem við búum alltaf að enda eigum við núna þessa yndislegu stúlku saman.

Takk fyrir mig elsku Auður og gangi ykkur öllum vel.

Pin It on Pinterest

Share This