Heimafæðingin okkar

Til baka

Sónarinn sagði að sonur okkar ætti að koma 2. ágúst en samkvæmt mínum útreikning var það 7. ágúst þannig að ég varð ekki fyrir miklum vonbrigðum þegar hann svo kom ekki settan dag. Ég gekk líka 10 daga fram yfir með eldri strákinn minn sem er 7 ára og gerði ráð fyrir að þurfa að bíða.

Fyrri fæðingin mín átti sér stað á spítalanum á Akureyri og gekk að mínu mati ekki vel. Hún endaði sem betur fer vel en ég var ekki nógu sátt við ferlið eftir á. Ég var mjög lengi að, sólarhring, úrvinda, kunni ekkert að takast á við sársaukan/hríðirnar, var dauðhrædd og hreinlega ekki nógu vel undirbúin. Elsku drengurinn minn sat fastur, þar sem ég spennti og barðist hart á móti hverri hríð (kunni ekki annað) og var á endanum tosaður í heiminn með töngum og sogklukku eftir að ég hafði verið klippt og rifnaði líka.

Þegar að ég vissi að ég væri ólétt í annað sinn ákvað ég eftir nokkur kvíðaköst að þetta yrði sko ekki eins í þetta skiptið. Það var aðallega stjórnleysið og hræðslan sem fór alveg með mig síðast. Við lentum á yndislegri ljósmóðir á heilsugæslunni okkar og komumst svo fljótlega að því að hún sérhæfir sig í heimafæðingum. Svo sáum við hana í þættinum Fyrstu Skrefin. Þar var sýnd heimafæðing ungs pars og allt var svo rólegt, eðlilegt og fallegt. Engin læti og alveg gjörólíkt fyrri fæðingunni minni. Ég og maðurinn minn störðum á þetta og að loknum þætti horfðum svo hvort á annað alveg jafnundrandi yfir því að þetta leit nú ekki svo vitlaust út! Heimafæðing var eitthvað sem mér hefði aldrei dottið í hug áður. Ég var nefnilega búin að ákveða að í þetta skiptið ætlaði ég að fara í dáleiðslu og láta dáleiða mig í burtu frá sársaukanum, fá mænudeyfingu…já helst bara láta rota mig svo ég fyndi ekki fyrir neinu. Heimafæðing var að mínu mati eitthvað sem að væri fínt fyrir konur með háan sársaukaþröskuld; hippa, listamenn, rithöfunda og svoleiðis týpur:-) Ég og maðurinn minn vinnum bæði í banka og það passaði engan vegin við þær ranghugmyndir sem ég hafði um heimafæðingar! Samt var eitthvað við þetta sem togaði og ég minntist á þetta við ljósmóður mína í næstu skoðun. Hún benti mér á bók sem heitir Birth your way og er mjög upplýsandi um fæðingar í heimahúsum, á spítölum og fæðingarheimilum og gæti hjálpað mér að gera upp hug minn. Því meira sem ég las mig til því meira heillaðist ég að hugmyndinni um heimafæðingu og meikaði þetta sens. Á endanum tókum við þessa ákvörðun. Við stefndum að því að fæða son okkar heima í stofu, helst í vatni. Mér leið mjög vel með þetta og maðurinn minn studdi mig 100%. Ég fann að því meira sem ég las mig til því meira öryggi fékk ég og sjálfstraust til fæðingarinnar. Kvíðinn breyttist hægt og rólega í tilhlökkun.
Ég hafði lesið um að til væru manneskjur sem sérhæfðu sig í að undirbúa og aðstoða konur við fæðingar. Svokallaðar “dúllur”. Áslaug ljósmóðirin mín benti mér á eina slíka. Ég var til í prufa allt. Ég pantaði mér tíma og sagði henni svo allar hugmyndir mínar um hvernig ég vildi hafa þetta í þetta skiptið, flótti frá sársaukanum var þemaið mitt! Hún horfði á mig með stóískri ró og sagði mér að það væri nú eiginlega ekki það sem hún kenndi. “Þú sérð, ég kenni þér að takast á við hríðirnar, vinna með þeim til að auðvelda barninu leiðina í heiminn” sagði hún. Mér leist ekkert á þetta til að byrja með en ég var til í að prufa. Hægt og rólega sannfærðist ég og við fórum að vinna saman. Þessi frábæra kona heitir Harpa Guðmundsdóttir og er Alexandertæknikennari. Hún benti mér svo á að fara í meðgöngujóga hjá Auði til að undirbúa mig enn betur. Eins og þið vitið er það ómetanlegur undirbúningur andlega og líkamlega að læra haföndunina og bara öll fræðslan (spjallið og fæðingasögurnar) sem fer fram á meðan. Þetta undirbýr mann allt hvort sem það er meðvitað eða ekki.

Jæja svo ég komi mér að fæðingunni minni. Þetta byrjaði allt á föstudaginn um verslunarmannahelgina. Þá var ég komin einn dag fram yfir. Slímtappinn hafði farið fyrir nokkrum dögum. Við ákáðum að prufa að örva geirvörtunarnar eins og við höfðum heyrt að gæti hjálpað. Ég ákvað að leyfa manninum mínum að sjá um örvunina og mér fannst eitthvað gerast. Ég fékk samdrætti, litla en það var eitthvað. Ég var voða ánægð og spennt að finna loks eitthvað og það kveikti í mér von um að ég þyrfti ekki að bíða mikið lengur. Daginn eftir fór ég í meðgöngunudd og konunni hálfbrá að sjá mig komna svona langt. Ég var bara ákveðin í að hanga ekki heima og láta mér leiðast þótt ég væri fullgengin. Ég man hún sagði við mig á leiðinni út “ég vona að þú eigir fljótlega” eins og hún hafi vitað að þetta væri alveg að koma og ég vonaði svo sannarlega að hún hefði rétt fyrir sér. Ég fann annað slagið vægar hríðar um daginn og undir kvöldið fór ég prufa að taka tímann. Þær voru svona reglulegar með 5-10 mín á milli en duttu svo niður. Ekkert óbærilegt en ég æfði mig að anda mig í gegnum þær. Þar sem ég er mikill næturhrafn, og var mjög spennt, þá vakti ég nánast alla nóttina. Það var alls ekki góð hugmynd eftir á en ég lá bara og horfði á sjónvarpið og beið eftir því að eitthvað meira myndi gerast. Ég dottaði aðeins undir morgunin. Daginn eftir fórum við í ís-rúnt og svo út á Keflavíkurflugvöll að sækja eldri son minn sem var búin að vera í sumarfríi hjá ættingjum í Englandi í mánuð. Ég var líka mjög spennt að fá hann heim. Ég var með hríðir um daginn með svona 4-7 mín á milli og nokkuð reglulegt en ekkert óbærilegt enn. Mér fannst ég ná að anda mig vel í gegnum þær og var ágætlega yfirveguð. Um kvöldið fann ég hvernig hríðirnar hægt og rólega urðu sterkari og ég sagði Gunnari að hringja í hana Áslaugu ljósmóðir því nú hliti eitthvað að fara að gerast. Einhver smáútvíkkun. Það var komið sunnudagskvöld. Hún kom og athugaði útvikkunina. Hún var engin. Það voru mikil vonbrigði. Ég sem var búin að slaka á milli og anda og vera svo duglega og ekkert!! Sko ekki einu sinni nálægt því. Ekki bara hálfur cm!! Hún sagði mér að ég yrði að ná hvíld því ég væri að fara að fæða á næsta sólarhring. Hún sagði líka að ég væri líklega ein af þessum konum sem tæki smá tíma að hrökkva í gang. Málið var að hríðirnar voru orðnar það harðar að ég gat ekki bara lagst niður og sofnað og ég sagði henni það. Hún gaf mér nálastungu á milli augnanna til að slaka á mér svo ég gæti sofnað og sagði okkur svo að hringja ef eitthvað væri. Það eina sem nálastungan gerði á þessum tímapunkti fyrir mig var að deyfa mig í andlitinu. Ég var líka orðin mjög þreytt vegna svefnleysis nóttina áður og tilfinningarnar aðeins farnar að láta í sér heyra. Þarna stóð ég eftir með nál á milli augnanna, grátandi eins og lítil stelpa vegna þreytu og smá vonleysis vegna þess að ég var ekki komin með neina útvíkkun. Ég gat alls ekki sofnað. Maðurinn minn hringdi aftur í Áslaugu og sagði að þetta gengi ekki. Hún kom undir eins aftur og ákvað að ég þyrfti nauðsynlega svefn. Hún fór upp á spítala og sótti eina svefntöflu og parkódín til að deyfa sársaukann svo ég gæti sofnað eitthvað. Maðurinn minn var yndislegur og stóð svo sterkt með mér. Það breytti öllu fyrir mig að hafa hann við hlið mér sem traustann stuðning og talsmann. Þetta stóðst hjá Áslaugu. Ég náði 3-4 tímum og um sjöleitið morgunin eftir vöknuðum við, hæstánægð með að ég hafði loksins náð að sofna eitthvað og tilbúin í slaginn. Hríðirnar voru fljótlega orðnar með 3 mín. á milli og upp úr níu hringdum við í Áslaugu. Það var komin mánudagurinn 6. ágúst, frídagur verslunarmanna, og við vorum ekki þunn að skríða út úr tjaldi í Vestmannaeyjum heldur að fara að fæða barn í stofunni heima hjá okkur!! Áslaug kom og mældi útvíkkunina. Ég gerði mér ekki miklar vonir út af fyrrum vonbrigðum en grét næstum úr gleði þegar hún sagði “flott Inga, þú ert komin með 6-7 í útvíkkun”. Öll vinnan, öndunin í gegnum hverja hríð ásamt slökunninn á milli hafði loksins borgað sig. Hún kallaði á Gunnar manninn minn og sagði honum að láta renna í baðið. Það hlakkaði í okkur. Nú var loksins komið að því. Ég hlakkaði líka svo til að komast í vatnið. Gunnar hélt í hendina á mér og minnti mig á að anda í gegnum hverja einustu hríð. Þegar þær voru orðnar svona harðar þá átti ég til að gleyma að anda og það var nauðsynlegt fyrir hann að minna mig á það því annars barðist ég bara á móti henni sem gerði illt verra. Ég svamlaði um í lauginni á meðan ég hlustaði á Grace diskinn. Ég hafði æft mig í að slaka á við hann fyrir fæðinguna og það borgaði sig. Maður tengir strax og slakar.
Við vorum bara þrjú. Ég, Gunnar og Áslaug. Ég hafði talað við Hörpu “dúlluna” um að hringja í hana ef ég vildi fá hana og hún bauðst til þess, en þegar allt kom til alls þá vildi ég ekki hafa fleiri. Ég fann að mér fannst Gunnar og Áslaug nóg. Eldri strákurinn minn fór í ís-rúnt með ömmu sinni um það leiti sem ég fór í pottinn. Um 10 leitið hringdi Áslaug þó í vinkonu sína sem er einnig mjög reynd ljósmóðir til að hafa aukahendur til öryggis. Ég treysti Áslaugu fullkomlega enda höfðum við kynnst henni vel á meðgöngunni og munaði öllu að vera með ljósmóður sem ég þekkti vel í fæðingunni. Um 11 leitið var ég komin með 10 í útvíkkun og ég fékk rembingsþörf. Við vorum búin að að áætlað að þetta yrði stór strákur, um 18 merkur líkt og eldri strákurinn minn. Ég rembdist í gegnum nokkrar hríðar og var smá tíma að ná tækninni. Ég fann að ég var fyrst hrædd við að rembast, hélt ég myndi springa ef ég mætti þörfinni algjörlega. Rembast niður, það var málið. Ég breytti um stellingar, kraup, hallað mér fram og hálfsat. Áslaug leyfði mér alveg að ráða og lét okkur Gunnar nokkurn vegin um átökin. Hún fylgdist mjög vel með hjartslætti fóstursins og var hann mjög stöðugur. Allt var eins og það átti að vera. Nú hálfsat ég og hallaði mér aftur þar sem Gunnar var fyrir aftan mig, hélt í hendina á mér og hvatti mig áfram. Áslaug sagðist sjá í hausinn. Hildur vinkona hennar var tilbúin með myndavélina. Ég rembdist og remdist og loks kom hausinn út. Hann rann þó inn aftur um leið og ég slakaði og hríðin var búin. Þetta gerði hann 4-5 sinnum. Ég fann hvernig hann rann aftur inn. Áslaug horfði bara á þetta gerast í vatninu en það var alveg tært og ekkert blóð. Ljósmæðurnar stóðu bara og dáðust af þessu eins og maður gerir þegar maður horfir á dýralífsmynd þegar villidýr fæðir úti í náttúrinni. Mér leið líka þannig en það er annað mál:-) Áslaug þreifaði svo eftir naflastrengnum sem var lauslega vafin um hálsinn og tók hann yfir. Nú var hausinn loks komin út til að vera og þá kom næsta hríð og kl. 12.07 skaust hann Magnús mikli í heiminn. Rúmlega 19 merkur og 56 cm. Ég fékk hann beint upp í fangið á mér og ég heyrði hann jarma eins og lamb. Hann var svo stór og auðvitað gullfallegur. Fékk hæstu einkunn. Gunnar klippti naflastrenginn og tók svo við honum. Hann byrjaði á því að pissa á pabba sinn. Ég vildi fara upp úr lauginni, á dýnu sem ég hafði búið við hliðin á henni, til að fæða fylgjuna. Mér varð allt í einu svo kalt í vatninu svona hálfpartin í sjokki eftir fæðinguna eins og gerist með hormóna og endorfínflæðið á fullu. Ég fæddi fylgjuna á meðan hann tók brjóstið í fyrsta skiptið. Ég rifnaði örlítið og Áslaug saumaði mig uppi í rúmmi.
Stuttu seinna láum við Gunnar ásamt eldri syni okkar uppi rúmmi að dást að nýja fjölskyldumeðlimnum okkar. Þetta var æðisleg upplifun í alla staði og ég hefði ekki viljað gera þetta á neinn hátt öðruvísi. Ég var mjög hress eftir fæðinguna og farin að setja í vél nokkrum klukkutímum seinna!

Ef ég ætti að útskýra í einföldu máli af hverju ég valdi heimafæðingu myndi ég segja að ég taldi mig vera að margfalda líkurnar á því að ég ætti rólega og góða fæðingu undir minni stjórn þar sem ég var á heimavelli og gat stjórnað aðstæðum og þyrfti ekki að sitja undir óvæntum og óþarfa inngripum. Það stóðst. Ég las mig mikið til um heimafæðingar og las einnig aðrar fæðingarsögur. Ég tók fljótlega eftir því að engin saga var eins. Allar konur virðast upplifa þetta ólíkt, en það sem mér fannst áhugaverðast og hvatti mig til að hugleiða sterklega heimafæðingu var sú staðreynd að hefðbundnar fæðingarsögur sem áttu sér stað á spítölum voru alveg frá því að vera jákvæðar og yndislegar og út í það að vera mjög neikæðar og stundum ógnvekjandi. Aftur á móti las ég ekki um eina heimafæðingu sem ekki var falleg frásögn og á einhvern hátt jákvæð upplifun. Þá voru auðvitað tilfelli þar sem tekin var ákvörðun um að fara upp á spítala vegna erfiðleika og áhættu en konurnar virtust alltaf sáttar í frásögnum sínum við það að hafa kosið heimafæðingu og þá þakklátar fyrir að hafa átt þann möguleika að geta kosið að sækja hátæknisjúkrahús vegna þess að fæðingin gekk ekki nógu vel og grípa þurfti inn í. Þær konur sem kusu heimafæðingar virtust líka alltaf konur sem höfðu ákveðið hugrekki og voru tilbúnar að takast á við fæðinguna sína og taka ábyrgð á henni. Ég get ekki útskýrt þetta betur en ég vildi vera ein af þeim. Eiga jákvæða og fallega fæðingasögu ofan á fyrri reynslu mína sem ekki verður breytt héðan í frá. Ég vildi leggja upp með allt sem ég gæti til að eiga jákvæða reynslu. Ég sé sko ekki eftir þessari ákvörðun.

Ég vil þó taka það fram að ég virði það fullkomlega hvernig konur kjósa að fæða og veit að það er ekki til ein rétt leið, en það að við höfum þetta val skiptir öllu máli. Við konur eigum, að mínu mati, að virða ákvörðun annara kvenna um hvernig þær kjósa að fæða börnin sín og styðja hvor aðra í þeirri ákvörðunartöku. Þetta er mjög persónuleg ákvörðun og ég komst fljótlega að því að mikð af fólki var með fordóma gagnvart heimafæðingum. Ég sá það líka fljótt að þetta var aðallega þekkingarleysi sem oftast útskýrir fordóma. Við hjónin ákváðum fljótlega að halda þessu út af fyrir okkur á meðan á meðgöngunni stóð því viðbrögð manna voru oft mjög neikvæð, hrokafull og dómhörð. Eins og þið þekkið þá vill maður auðvitað bara heyra uppörvandi og uppbyggilega hluti fyrir. Það á bara að hvetja og uppörva óléttar konur að mínu mati og ekki hræða þær með fullt af “Hvað ef…?” staðhæfingum.

Gangi ykkur öllum vel og munið bara að hugsa jákvætt þar sem jákvætt hugarfar ásamt trú á eigin líkama getur breytt öllu um hvernig ykkur gengur í fæðingunni.

Kær kveðja Inga Hrönn.

Pin It on Pinterest

Share This