NÚVITUND HUGLEIÐSLA

Núvitund er aldagömul hugleiðsluaðferð sem á rætur að rekja til Búddisma þar sem athyglinni er beint að líðandi stund, með opnum huga, án þess að dæma, af forvitni og með vinsemd. Núvitund hjálpar okkur að upplifa líðandi stund með fullri meðvitund, róa hugann og þekkja okkur sjálf betur. Í upphafi tímans eru gerðar nokkrar jógaæfingar og öndunaræfingar áður en byrjað er á langri hljóðlátri hugleiðslu.

Að upplifa kyrrð innra með sér er hluti af allri jógaiðkun. Ótal hugsanirnar skella á okkur á hverju augnabliki en þegar við náum að leiða þær hjá okkur kyrrist hugurinn smám saman og þetta ferli er hugleiðsla. Best væri að finna sér góða stund í rólegu umhverfi, hafa bakið beint og líkamann kyrrann. Þegar  líkaminn er kyrr og einbeitingin er góð upplifum við þægindatilfinningu sem gott er að dvelja í.
Það skiptir ekki máli hvað hugleiðslan heitir, við erum alltaf að þjálfa hugann. Innsæið eflist þegar við hugleiðum en það verndar okkur og veitir okkur svör þegar við vitum ekki hvað við eigum að gera. Hugleiðsla hjálpar okkur að brjóta upp vana, hreinsa hugann og takast á við daglegt amstur. Hugleiðsla er eins og andleg sturta. Þægileg, hreinsandi og frískandi. Þegar við þjálfum núvitund með hljóðlátri hugleiðslu eflum við innsæið, verðum betur vör við þær hugsanir og tilfinningar sem koma upp í hugann og lærum að láta þær ekki teyma okkur áfram. Við þjálfum hugann og náum betri stjórn yfir honum. Athyglinni er beint á ákveðinn stað, oftast að önduninni en athyglin er verkfæri sem þjálfar hugann. Við getum notað möntrur en þær eru ekki nauðsynlegar, þær eru líka verkfæri til að ná stjórn yfir huganum og þjálfa athyglina.

Með aukinni ástundun fjölgar þeim augnablikum þar sem við upplifum þægindi hugleiðslunnar. Hugurinn kemst í kyrrð og við finnum fyrir einingu með öllu sem er.

Byggt á fyrirlestri Yogi Bhajan „Meditation – A Simple Process“