SPURNINGAR OG SVÖR

Hvað er Kundalini Jóga?

Kundalini jóga er stundum kallað móðir alls jóga en líka jóga vitundar. Yogi Bhajan færði kundalini jóga tæknina frá Indlandi til vesturs árið 1969. Sjálfur var  hann bæði meistari í Kundalini og Hatha jóga. Áður hafði legið leynd yfir Kundalini jóga og aðferðin aðeins kennd frá meistara til nemanda. Yogi Bhajan rauf þessa leynd og  gerði því kundalini jóga aðgengilegt og opið fyrir hvern þann sem læra vildi.

Kundalini jóga er kraftmikið og skjótvirkt jóga og hentar því vel nútímanninum. Markvisst er unnið að koma jafnvægi á innkirtlastarfsemina, styrkja taugakerfið, efla styrk og úthald, jafnt andlega sem og líkamlega.

Unnið er með öndun, jógastöður, orkugefandi rythmiskar æfingar, möntrur, hugleiðslu og slökun

Kundalini orkan er lífsorka sem í öllum býr en má  efla og virkja betur hjá flestum. Við örvun rís orkan upp hryggjarsúluna.  Við verðum orkumeiri, áræðnari og tengdari við lífskraftinn sem í okkur býr.

Hvað þýðir Kundalini?

Bókstaflega þýðir Kundalini:  Hár úr lokki hins heittelskaða. Orkan flæðir  eins og krullaður lokkur upp eftir hryggnum og eykur flæði milli orkustöðvanna (chakras)

Hvað er kriya?

Í Kundalini jóga gerum við mismunandi kriyur-æfingaraðir. Kriya er röð af æfingum, hreyfingum og mudrum (handastaða) til að skapa ákveðin áhrif. Hver kriya vinnur markvisst að því að styrkja ákveðin kerfi eða hluta líkamans, t.d. kriya til að styrkja ónæmiskerfið, taugakerfið, innkirtlakerfið, að styrkja bakið og/eða opna og styrkja hjartað.

Hvað er mantra?

Mantra “sacred utterance” er endurtekið orð eða frasi. Mantra má einnig þýða sem frelsi hugans (man = hugur og tra = frelsi). Möntrur efla tíðnina en um leið lægja öldur hugans. Með því að koma jafnvægi á hug og hjarta skapast ró og skýrleiki. Mantran getur hljómað innra með manni eða verið sungin út. Algeng mantra í kundalini jóga er  Sat Nam (sannleikurinn er nafnið mitt )

Hvað er mudra?

Mudra þýðir handastaða. Mudrur eru oft notaðar í tengingu við öndunaræfingar og hugleiðslur til að skapa ákveðin áhrif. Taugaendar í fingrum og höndum eru tengdar upp í heila. Með stöðum og hreyfingum er starfsemi heilans örvuð og þar með áhrif höfð á gjörvalla líkamsstafsemina, hugann og hjartað.

Pin It on Pinterest

Share This